„Ég þekki starfið vel, enda hef ég starfað við fjármálaráðgjöf hjá Deloitte í sex ár,“ segir Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir sem nýlega tók við sem sviðstjóri fjármálaráðgjafar Deloitte.

„Hjá Deloitte vinnum við þétt með okkar viðskiptavinum við að leysa margvísleg verkefni á sviði fjármála fyrirtækja. Við vinnum mikið með kaupendum og seljendum fyrirtækja, og veitum við þjónustu við verðmat, áreiðanleikakannanir, fjármögnun og fleira.“

Starfinu fylgir einnig töluverð alþjóðleg samskipti.

„Við vinnum mikið með skrifstofum okkar á Norðurlöndum og erum við í sérstaklega góðu samstarfi við dönsku skrifstofuna, sem við vinnum þétt með, en ég starfaði þar um tíma og kynntist þeim vel,“ segir Lovísa sem segir muninn þónokkurn á Íslendingum og Dönum.

„Munurinn er meiri en maður hefði haldið, við Íslendingar getum lært margt af þeim og þeir af okkur, en við vinnum vel saman. Þeir eru auðvitað mjög skipulagðir ásamt því að leggja mikið upp úr mannlegum samskiptum.

Daninn vill helst vita nákvæmlega hvað þarf að gera í hverri viku, nokkrar vikur fram í tímann. Við Íslendingar erum hins vegar töluvert sveigjanlegri og erum ekki að kippa okkur mikið upp við það ef aðlaga þarf verkefni og eigum við því auðvelt með að klæðskerasníða lausnir í kringum þarfir kúnnans.“

Lovísa lærði iðnaðarverkfræði í grunnnámi sínu en færði sig síðan yfir í fjármálahagfræði.

„Ég hafði alltaf meiri áhuga á fjármálum, en ég hafði starfað hjá Íslandsbanka og forverum hans alveg frá því að ég var átján ára gömul,“ segir Lovísa en hún flutti sig yfir til Deloitte meðan hún var í fjármálahagfræðináminu.

„Ég vildi nýta stærðfræðibakgrunninn úr verkfræðinni en ég fann mig vel í fjármálafræðunum.“

Lovísu, sem er í sambúð, finnst skemmtilegast að stunda golf í frítíma sínum en þegar Viðskiptablaðið náði af henni tali var hún þó á leið í skíðaferð til Noregs með vinahópi.

„Það spila allir golf á Íslandi, en það var svolítið fyndið að enginn spilaði golf á skrifstofunni í Danmörku, þeir fara bara á skíði,“ segir Lovísa sem finnst það allsérstakt miðað við hve landfræðilegar aðstæður í Danmörku eru kjörnar til golfiðkunar, en engan veginn til skíðaiðkunar, þótt hún hafi sjálf einnig gaman á skíðum.

„Þeim finnst hins vegar ekkert tiltökumál að fara suður til Ítalíu á skíði.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .