*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 30. ágúst 2021 11:19

Það stærsta sem Hertz hefur orðið fyrir

Langtímaleiga og sterkur endursölumarkaður voru meðal þess sem hélt Hertz á floti gegnum síðasta ár.

Jóhann Óli Eiðsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Við höfum lent í mörgu stóru en þetta var það alstærsta. Langtímaleigan og bílasalan hreinlega hélt okkur á floti. Við höfðum byggt félagið upp þannig að það væri tilbúið að taka á móti miklum mótvindi og seglin héldu. Við fórum ekki á hliðina,“ segir Sigfús B. Sigfússon, forstjóri Hertz, um síðasta ár.

Tekjur féllu um tæpa tvo milljarða í fyrra og námu 1,2 milljörðum. Afkoma fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 247 milljónir og ofan á það komu 169 milljóna vaxtagjöld. Gengismunur kom ekki jafnilla við félagið og Höldur og Alp en endanleg afkoma var 314 milljóna tap, samanborið við 70 milljóna hagnað 2019. Eigið fé nam 803 milljónum í ársbyrjun.

Leiðrétting Í prentútgáfu blaðsins og upphaflegri vefútgáfu hafði eigið fé félagsins misritast duglega. Staðhæft var að það hefði verið 83 milljón krónur en hið rétta er að þar vantaði eitt núll. Rétt tala er 803 milljónir og leiðréttist það hér með. Hlutaðeigandi og lesendur eru beðnir afsökunar á þessum mistökum.

Félag hans nýtti nær öll úrræði stjórnvalda, að brúarlánum undanskildum, og segir að þau hafi skipt sköpum. „Við reiknuðum með einhverju í sumar en þetta gerðist svo ofboðslega skarpt, miklu hraðar en maður þorði að vona. Í þokkabót vorum við að keyra á 20% minni flota nú en á venjulegum háannatíma og við nýttum hann til hins ítrasta. Það voru allir tilbúnir að taka þátt í þessu,“ segir Sigfús og á ekki von á öðru en að það haldi áfram, að því gefnu að ekkert óvænt komi upp á.

„Enn sem komið er finnum við ekki slaka. Sumarið er að lokast eins og hefðbundið sumar, það er mikið af bókunum í september og eitthvað fram í október. En á móti fara vetrarleigan og fyrirtækin af stað svo við erum nokkuð bjartsýn,“ segir hann að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Bílaleigur