Fyrirtækið Meðbyr var stofnað á dögunum og vakti það talsverða athygli að Einar Bárðarson, sem hefur starfað bæði hjá hinu opinbera og einkageiranum í málum tengdum ferðaþjónustunni, hafi söðlað um og stofnað ráðgjafafyrirtæki. Einar var áður rekstrarstjóri hjá Kynnisferðum – Reykjavík Excursion sem og forstöðumaður Höfuðborgarstofu og er því þaulreyndur á sviði ferðaþjónustunnar.

Spurður að því hver kveikjan var að því að stofna Meðbyr segir Einar: „Það er til mikið af ráðgjafafyrirtækjum, góðum og gildum, en í þessum hraða vexti ferðaþjónustunnar sérstaklega síðustu fimm árin þegar hún hefur farið í algjörlega nýjar hæð­ir, þá met ég það þannig að það er vöntun á ráðgjöfum með sérþekkingu innan úr ferðaþjónustunni.“

Hokinn af reynslu

Einar hefur starfað í fjöldamörg ár í innsta hring ferðaþjónustunnar, bæði í einkageiranum og hinum opinbera. Hefur Einar aflað sér umfangsmikillar þekkingar og víðtæks tengslanets í greininni. „Nú bý ég að því að hafa unnið hjá Reykjavíkurborg og var þar í miklu samstarfi í mínu starfi sem forstöðumaður Höfuðborgarstofu, við alla landshluta og Íslandsstofu. Einnig sat ég í stjórn Inspired By Iceland og svo hef ég leyst alls konar flókin verkefni sem voru unnin í samstarfi Reykjavíkurborgar, ríkisins og sveitarfélaga hér í kring.

Eftir það var ég einnig rekstrarstjóri hjá einu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, Reykjavík Excursions. Þá hefur maður komið að ýmsum áskorunum ferða­ þjónustunnar úr báðum áttum, hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Það er margt sem mér fannst ég skilja þegar ég vann hjá borginni, en ég skil nú enn betur þegar ég hef unnið í einkageiranum,“ segir Einar.

Með ólíkindum að kenna ferðaþjónustunni um

Spurður um aðkallandi áskoranir og styrkleika íslenskrar ferðaþjónustu segir Einar að í augnablikinu sé talað talsvert um vandann sem tengist húsnæðismálum og gengi krónunnar. „Ferðaþjónustunni er stundum kennt um, sem mér finnst hreint með ólíkindum. Ferðaþjónustan er búin að draga okkur á asnaeyrunum út úr kreppunni og hafa af okkur gjaldeyrishöftin,“ segir Einar og og hlær. „Það hljóta allir að sjá að án uppgangsins í ferðaþjónustunni væri samfélagið og efnahagur okkar á allt öðrum og líklega verri stað.

Helsti kostur ferðaþjónustu sem atvinnugreinar er að hún hefur mikil afleiðuáhrif út í allt samfélagið, það er að segja, allar hinar greinarnar njóta góðs af því að það gengur vel í ferðaþjónustu,“ segir hann.