HS Orka er orkufyrirtæki í Reykjanesbæ sem annast orkuframleiðslu og raforkusölu. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í framleiðslu á endurnýjanlegri orku í 40 ár.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir að síðastliðin misseri hafi verið viðburðarík hjá fyrirtækinu og að ýmislegt sé í burðarliðum hjá HS Orku.

„Það sem hefur verið helst á döfinni hjá HS Orku er þessi hefðbundni rekstur orkuveranna í Svartsengi og á Reykjanesi og áframhaldandi uppbygging á starfseminni í Auðlindagarðinum,“ segir Ásgeir í samtali við Viðskiptablaðið.

„Nýleg uppfærsla á úttektinni á Auðlindagarðinum sýnir alveg ótrúlegar tölur um umfang starfseminnar, það er fyrirtækjanna sem lifa og hrærast í kringum orkuverin. Það starfa um sextíu manns hjá HS Orku en í Auðlindagarðinum starfa hins vegar um 900 manns í nokkrum fyrirtækjum. Þetta eru fyrirtæki sem lifa og þrífast á því að orkuverin séu til staðar. Þetta er bein afleidd starfsemi af orkuvinnslunni og þetta er allt saman nýting á auðlindum sem annars væri ekki til staðar,“ bætir hann við.

Stærsta einingin í Auðlindagarðinum er Bláa lónið, það er ferðaþjónustuhlið fyrirtækisins, hótelrekstur, snyrtivöruframleiðsla sem og rannsóknir og þróun þess. „Þar er einnig metanólframleiðsla hjá Carbon Recycling. Þar er matvælaframleiðsla hjá Haustaki og Há­teigi úti á Reykjanesi og Stolt Seafarm á Reykjanesinu, og þarna er snyrtivöruframleiðsla hjá Orf líftækni. Þannig að í grunninn er þetta ferðaþjónusta, snyrtivörur, matvæli og síðan eru nýjar einingar að bætast við í Auðlindagarðinn á næstunni,“ tekur Ásgeir fram.

„Það þarf að virkja meira“

Ásgeir segir að staðan á orkumarkaðnum sé sú að fyrirtækið geti ekki orðið við beiðnum við­ skiptavina á þeirri orku sem þeir vilji kaupa, HS Orka á hana ekki til. „Það vantar meiri orku. Orkukerfi landsins er mikið til fullnýtt. Það þarf að virkja meira, ef við viljum uppfylla þarfir samfélagsins. Það þarf að efla flutningskerfið líka, það er mjög takmarkandi þáttur víða. Stundum er orkuöflun takmarkandi, stundum er orkuflutningurinn takmarkandi, það fer eftir hvar á landinu þú ert. Það eru stórir þættir sem þarf að vinna í og þarf að huga að orkustefnu Íslands. Ekki bara rammaáætlunin heldur hvert við viljum stefna. Okkur finnst þessu vera ábótavant,“ tekur Ásgeir fram.

Fyrir áramót féll dómur í gerð­ gerðardómsmáli sem varðaði gildi orkusölusamnings milli HS Orku og Norðuráls. Ásgeir segir niðurstöðuna mikið fagnaðarefni fyrir fyrirtækið. „Það hreinsar óvissuna sem var til staðar, það hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir fyrirtækið að það mál sé frá,“ tekur Ásgeir fram.

Nánar er fjallað um málið í Orku og iðnaði, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð .