Stjórnendur Eimskips hafa talað fyrir daufum eyrum ráðamanna hér þegar þeir hafa þrýst á að stjórnvöld grípi til raunhæfra aðgerða til að koma í veg fyrir að hælisleitendur reyni að smygla sér um borð í skip sem eru á leið til Bandaríkjanna. Málið er alvarlegt enda hefur bandaríska strandgæslan hótað því að banna skipum Eimskips að leggja við bryggju í bandarískri höfn finnist laumufarþegi um borð.

Íslensk-ameríska verslunarráðið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að verði skipum Eimskips bannað að leggja við höfn í Bandaríkjunum muni það verða inn- og útflytjendum hér á landi mikið tjón. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, er jafnframt í stjórn íslensk-ameríska viðskiptaráðsins.

Í yfirlýsingunni er rifjað upp að í kringum áramótin 2009 og 2010 hafi farið að bera á því að hælisleitendur hér á landi gerðu skipulagðar tilraunir til að komast um borð í skip Eimskips í Sundahöfn, sem halda uppi áætlunarsiglingum milli Íslands og N-Ameríku með það í huga að komast þar óleyfilega í land.

Í kjölfarið hótaði bandaríska strandgæslan því að hækka vástig í íslenskum höfnum með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Að öðrum kosti verði þarlendum höfnum lokað fyrir Ameríkuskipum félagsins ef ekkert verð gert til að stöðva þessa öfugþróun sem nú ógnar siglingum til Bandaríkjanna. Eimskip brást við með því að koma upp öflugum og dýrum eftirlitsbúnaði við Sundahöfn og ráðið sérstaka öryggisverði er skilað hefur tilætluðum árangri til þessa. Áfram reyna hælisleitendur þó að laumast um borð í skipin hér .

„Aldrei er að vita hvenær þeim tekst ætlunarverk sitt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Rót vandans virðist liggja í daufum aðgerðum íslenskra stjórnvalda við úrlausn málefna hælisleitenda sem koma hingað til lands í auknu mæli. Sumir þeirra ætla sér hvað sem það kostar að komast áfram til Bandaríkjanna eða Kanada með öllum tiltækum ráðum,“ segir í yfirlýsingunni.