Katla lét á sér kræla á dögunum þegar öflug jarðskjálftahrina hófst norðarlega í Kötluöskunni aðfaranótt mánudags. Tveir af skjálftunum mældust yfir fjórum stigum. Jarðfræðingar hafa staðfest að hér sé um að ræða með stærri skjálftum sem hafi orðið í öskunni en þrátt fyrir það sé ennþá ekkert sem bendi til þess að um eldgosóróa sé að ræða.

Er stærstu atvinnugrein landsins ógnað?

Eftir gríðarlega aukningu undanfarin ár er ferðaþjónustan nú sú atvinnugrein sem skapar mestar útflutningstekjur fyrir íslenska þjóðarbúið en um 1,3 milljónir ferðamanna komu til landsins í fyrra og líklegast að þeir verði töluvert fleiri í ár. Það er því eðlilegt að menn spyrji sig hvernig íslenskir ferðaþjónustuaðilar myndu bregðast við slíku eldgosi.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina, hjá Íslandsstofu segir margt hafa breyst til batnaðar undanfarin ár hvað þessi mál varðar.

„Ef það kemur stórt gos þá eru það almannavarnir sem fara af stað eins og venjulega en það sem hefur breyst frá árinu 2010 er að nú hafa þeir líka strax samband við okkur, þ.e. ferðaþjónustuaðila. Við sitjum öll við borðið og ræðum hvernig bregðast skuli við. Ef upp kemur hættuástand eru viðbrögð okkar m.a. að hafa samband við okkar erlendu ferðaheildsala og alla á okkar póstlista.

En við förum líka mjög varlega í það að meta hvað er hættuástand. Eðli málsins samkvæmt sendum við ekki endilega tilkynningar um allan heim um hættuástand. Það fer náttúrlega allt eftir stærð gossins. Það var enginn viðbúinn nema Almannavarnir þegar Eyjafjallajökull gaus en núna erum við betur undirbúin og kunnum á alla ferla og getum beitt þeim strax ef eitthvað gerist. Viðbragðsáætlanirnar eru allar í gangi og það eru allir meðvitaðir. Núna er líka mikið breytt hvað varðar upplýsingamiðlun og í dag er meðal annars til staðar tækni sem gerir okkur kleift að senda sms á alla síma sem eru á ákveðnu hættusvæði. Þetta fer allt af stað ef Katla gýs.

Ég hef sjálf gengið í gegnum tvö eldgos sem aðili ferðaþjónustunnar eftir að Eyjafjallajökull gaus og það eru bara viðbragðsáætlanir sem fara af stað. Það verður ekkert „panic“,“ segirInga Hlín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi undir Tölublöð.