Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, skrifaði grein í Morgunblaðið síðastliðinn laugardag þar sem hann gagnrýndi ummæli Finns Árnasonar, forstjóra Haga, í viðtali við Viðskiptablaðið 4. september sl. Finnur nefndi í viðtalinu að landbúnaðarkerfinu væri haldið uppi á kostnað heimila landsins og mjög lítil verðmætasköpun væri í atvinnugreininni.

Í grein sinni gagnrýndi Sindri þessi ummæli Finns og nefndi að innflutningur á landbúnaðarvörum myndi hafa slæm áhrif á innlenda framleiðslu og að verðmætasköpun landbúnaðar byggðist á mörgum þáttum. Íslendingar spöruðu til dæmis gjaldeyri með því að framleiða innlendan mat í stað þess að flytja hann inn frá útlöndum.

Finnur skrifaði grein í Morgunblaðið nú í morgun þar sem hann svarar grein Sindra þar sem hann bendir á að verðmætasköpun landbúnaðar nemi um þriðjungi af lágmarkslaunum á Íslandi miðað við fjölda starfa í landbúnaði, eða um 70 þúsund krónum á mánuði. Segist Finnur jafnframt hafa boðið Sindra í kaffi til að ræða bættan hag bænda til framtíðar. Sindri hafi hins vegar ekki þegið kaffið.