Mystery og Truenorth hafa tryggt sér réttinn á sex bókum eftir rithöfundinn Stefán Mána að því er fram kemur í fréttatilkynningu og verður gerð sjónvarpssería upp úr bókunum.

Bækurnar eru Húsið, Svarti Galdur, Feigð og Grimmd ásamt tveimur óútgefnum bókum og er hugmyndin að útfæra þær allar í sjónvarpsseríu sem færi í framleiðslu árið 2019.

Framleiðendur þáttanna eru sagðir í tilkynningunni himinlifandi yfir þessu umfangsmikla og spennandi verkefni en það eru þeir Davíð Óskar Ólafsson hjá Mystery Productions, Kristinn Þórðarson og Leifur B. Dagfinnsson hjá Truenorth.

Aðalpersóna bókanna er lögreglumaðurinn Hörður og leikaraval fyrir það hlutverk fer af stað í vor. Þó ætla framleiðendur þáttanna ekki að fylgja útlitslýsingum Stefáns Mána á Herði og þar af leiðandi koma mun fleiri leikarar til greina í hlutverk hans.