Brynjar Níelsson segir að stjórnmálamenn þurfi oft að taka ákvarðanir sem hafi áhrif á persónulega hagsmuni.

Þetta kemur fram í stöðufærslu sem Brynjar birti á Facebook um stöðu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar vegna þessara krafna eiginkonu hans á slitabú föllnu bankanna. Þar segir hann að nokkuð hafi verið kvartað yfir þögn sjálfstæðismanna um málið, en eftir að hafa farið yfir upplýsingar forsætisráðherra sem hann birti á Páskadag sé hann tilbúinn að aflétta þagnarbindindinu.

Brynjar segir að stjórnmálamenn þurfi oft að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á persónulega hagsmuni þeirra.

„Ágæt dæmi um það eru neyðarlögin þegar ákveðið var að innistæður fengju forgang umfram aðrar kröfur í föllnu bankanna. Enginn spurði þá um eignir stjórnmálamanna á innlánsreikningum. Enn betra dæmi er þegar síðasta ríkisstjórn ákvað í tengslum við auðlegðarskattinn að undanskilja lífeyriseignir frá skattstofni. Þeir sem áttu sinn sparnað í öðru formi, t.d. hlutabréfum eða sparnaðarreikningum þurftu að greiða auðlegðarskatt af þeim eignum. Hverjir skyldu nú hafa átt meiri eignir í lífeyrissjóði en aðrir? Og þar að auki lífeyri með ríkisábyrgð. Jú, oddvitar vinstri stjórnarinnar. Þarna var verið að setja lög sem voru ívilnandi fyrir þetta fólk, öfugt við skerðingar á eignum þeirra sem áttu kröfur á föllnu bankanna, eins og eiginkona forsætisráðherra.“

Brynjar segir einnig að það sé útbreiddur misskilningur að eiginkona forsætisráðherra hafi grætt þar sem samið var við kröfuhafana um stöðugleikaframlag í stað þess að skattur hefði verið lagður á.

„Stöðuleikaskatturinn var aldrei hugsaður sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Aldrei stóð til að innheimta meira af kröfuhöfunum en nauðsynlegt var til að efnhagslegur stöðuleiki væri tryggður við afnám hafta samkvæmt mati Seðlabankans. Hefði skatturinn átt að ná eitthvað umfram það hefði hann verið í andstöðu við stjórnarskrána.“

Brynjar segir að lokum að hann geti ekki séð að málið hafi mikil áhrif á stöðu Sigmundar og ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir að umræðan sé að auðvitað erfið.

„Ríkisstjórnin vann þrekvirki við að tryggja efnahagslegan stöðugleika, sem að mestu leyti var á kostnað kröfuhafa bankanna og þar með eiginkonu forsætisráðherra. Hins vegar hefði ég kosið að þessar upplýsingar hefði legið fyrir, svona í þágu vandaðri stjórnarhátta, sem og upplýsingar um lífeyriseignir Jóhönnu og Steingríms þegar auðlegðarskatturinn var lagður á.“