*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 25. mars 2020 11:17

Kaupi skuldabréf fyrir 150 milljarða

Seðlabankinn boðar magnbundna íhlutun. Hefur heimild til að fjárfesta fyrir 150 milljarða króna í ríkisskuldabréfum.

Sveinn Ólafur Melsted
Ásgeir Jónsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands.
Gígja Einarsdóttir

Heimild Seðlabanka Íslands til kaupa á ríkisskuldabréfum nemur 150 milljörðum króna. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, á fundi sem fram fór fyrr í morgun. Á fundinum kynnti hann nýlegar aðgerðir bankans í peningamálum er varða kaup á ríkisskuldabréfum. Á sama tíma fór Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum og setti hann fram sviðsmyndir um hvernig staðan gæti blasað við á næstunni.

Ásgeir greindi á fundinum frá áformum bankans um að hefja svokallaða magnbundna íhlutun, sem felur í sér að seðlabankar kaupi skuldabréf á opnum markaði. Að hans sögn var ákvörðun þess efnis tekin á sunnudag af peningastefnunefnd bankans. Enn eigi þó eftir að útfæra endanlega hvernig verði staðið að skuldabréfakaupunum.

Lík og fyrr segir nefndi Ásgeir að samkvæmt lögum hefði Seðlabankinn 150 milljarða heimild til kaupa á ríkisskuldabréfum, eða sem nemi um 5% af landsframleiðslu. Benti hann á að fyrirmyndir fyrir þessari aðferð mætti finna víða um heim, enda hafi henni verið beitt reglulega undanfarinn áratug.

Þá sagði Ásgeir að um væri að ræða sjálfstæða ákvörðun peningastefnunefndar og bankans, enda nyti hann sjálfstæðis lögum samkvæmt. Hann sagði þó að endanleg útfærsla stefnunnar yrði unnin í samvinnu við fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnina.

Af hverju magnbundin íhlutun?

Seðlabankastjóri fór á fundinum yfir ástæðu þess að ákveðið hafi verið að hefja magnbundna íhlutun. Sagði hann að um stýritæki til lengri tíma væri að ræða, enda vilji bankinn reyna að hafa áhrif á vexti með beinum hætti.

Þá benti hann á að ríkissjóður muni þurfa aukið fjármagn til að standa við sínar skuldbindingar. Ætlun bankans sé að tryggja framgang peningastefnunnar á markaði, þannig að heimili og fyrirtæki geti notið lágra vaxta í gegnum þetta áfall. Um sé að ræða nýtt stýritæki til að hafa áhrif og sér Ásgeir fram á að það verði notað til lengri tíma.

Að auki sagði Ásgeir að Seðlabankinn gæti selt bréfin síðar og þannig hækkað langtímakröfuna.

Ekki hætta á verðbólgu vegna stefnunnar

Ásgeir taldi þó einnig rétt, sem fyrrum peningahagfræðikennari til margra ára, að benda á þær hættur sem stefnan getur falið í sér. Nefndi hann í því samhengi að magnbundin íhlutun gæti aukið verðbólgu og þannig veikt gengi krónunnar. Það væri þó mat hans og bankans að sú hætta væri ekki til staðar við þessar aðstæður. Samdráttur sé í vændum, peningamagn hafi verið að dragast saman undanfarin ár, og því sé engin hætta að grípa til þessara aðgerða nú. Loks sagði Ásgeir að Seðlabankinn væri, með fyrri aðgerðum á undanförnum dögum og vikum, búinn að búa í haginn til að hagkerfið og bankakerfið geti tekið við þetta áfall sem COVID-19 veldur. Að auki boðaði hann að það mætti búast við frekari aðgerðum til varnar gegn COVID-19 frá Seðlabankanum.