Dreisam ehf., í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar fjárfestis, greiddi 620 milljónir króna fyrir 354 fermetra þakíbúð við Austurhöfn. Þetta kemur fram í kaupsamningi. Fermetraverð íbúðarinnar hljóðar því upp á 1,75 milljónir króna.

Ásett verð íbúðarinnar var hálfur milljarður króna, samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins síðan í fyrra, og seldist lúxusíbúðin því á 120 milljónir króna yfir ásettu verði. Um er að ræða fokhelda íbúð og sú stærsta af þeim 71 íbúðum sem hafa verið byggðar við Austurhöfn.

Sjá einnig: Jónas kaupir dýrustu íbúð Íslandssögunnar

Þakíbúðin er horníbúð með útsýni yfir Reykjavíkurhöfn og sundin, en innangengt er í íbúðina beint úr lyftu. Miðað er við að í íbúðinni séu sex herbergi og fjögur baðherbergi. Auk þess fylgja íbúðinni tvennar svalir og tvö bílastæði.

Næst stærsta íbúðin í Austurhöfn, við hlið hinnar nýseldu íbúðar, er 337 fermetrar. Sú íbúð var seld fokheld á 480 milljónir króna fyrir áramót til félagsins K&F ehf. , sem er í eigu Kesara Margrétar Jónsson, prófessors í grasa- og plöntuerfðafræði. Samkvæmt söluvef Austurhafnar eru einungis 9 af 71 íbúðum óseldar.

Dýrasta einbýlishúsið

Fyrr í mánuðinum seldi Jónas fasteign sína við Fjölnisveg 9 á 690 milljónir króna, samkvæmt umfjöllun mbl.is . Um er að ræða 370 fermetra einbýlishús sem byggt var árið 1929.

Húsið var keypt af þýska ríkisborgaranum Caroline Leonie Kellen, en samkvæmt heimildum mbl.is er um að ræða dýrasta einbýlishús sem selt hefur verið hérlendis upp á síðkastið. Húsið var áður fyrr í eigu Hannesar Smárasonar fjárfestis.