Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG og fyrrverandi ráðherra, þakkaði Júlíusi Jónssyni, forstjóra HS Orku, fyrir að koma til dyranna eins og hann er klæddur og viðurkenna afdráttarlaust að álver skapi ekki nægar tekjur miðað við þróun álverðs og því séu álverin á höttunum eftir lágu raforkuverði. Leita verði eftir því að laða hingað fyrirtæki í öðrum geirum sem tilbúin eru til að greiða hærra verð. Hann las upp úr viðtali við Júlíus í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem fram kemur að helsta vandamálið sé að álver sé í kringum 1.800 til 1.900 dalir á tonnið. Hann sakaði síðan Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra um að kenna öðrum um tafir við framkvæmdir við uppbyggingu álvers í Helguvík. Þar á meðal kenni fyrrverandi ríkisstjórn um að málið hafi tafist þegar annað standi í veginum.

„Það eru ekki efnahagslegar forsendur í heiminum,“ sagði Steingrímur.

Ragnheiður svaraði því hins vegar til að Steingrímur hefði átt að lesa einni setningu lengra í blaðinu þar sem segi að viðræður standi enn yfir. Hún stóð hins vegar fast á því að ýmsir hafi lagt stein í götu verkefnisins síðustu árin.

„Ég mun sjá til þess að ekkert strandar á mínu borði,“ sagði Ragnheiður.