Þörungaverksmiðjan í Karlsey við Breiðafjörð hefur verið starfrækt í tæp 40 ár. Nánast allar afurðir eru fluttar út og eru þær notaðar í ýmislegt, til dæmis sem íblöndunarefni í dýrafóður, snyrtivörur og lyf. Garðar Jónsson framleiðslustjóri segir að stefnt sé að því að fá leyfi til framleiðslu þangs til manneldis. Sú vinna sé samt á byrjunarstigi.

Alls starfa um 30 manns hjá Þörungaverksmiðjunni sem er þónokkuð, sérstaklega sé litið til þess að í heildina búa um 270 manns í Reykhólahreppi. „Það er að vísu árstíðarbundið hversu margir starfa hjá okkur,“ segir Garðar. „Mannfrekasta starfsemin er í kringum þangvertíðina sem er frá maí og fram í nóvember, þá eru hér um 30 manns með verktökum. Auk þangsins vinnum við þara á veturna.“

Klóþangið er skorið við sjávarmál og er notast við sérstaka sláttupramma við það en slátturinn er háður tíðarfari og sjávarföllum. Á vetrarmánuðum á sér stað framleiðsla á mjöli úr hrossaþara og er hann tekinn með þar til gerðum plógi á skipi verksmiðjunnar.