Grafíska hönnunarstofan THANK YOU, sem er að hluta til er í eigu Íslendinga  hlaut á dögunum silfurverðlaun fyrir bestu sjónvarpsgrafíkina á árlegri verðlaunahátíð Promax/BDA.

Promax/BDA er alþjóðleg stofnun fyrir alla þá sem starfa við markaðssetningu í sjónvarpi og í ár voru það 2500 verk,  frá 65 löndum,  sem kepptu um hinar eftirsóknarverðu styttur.

Á meðal keppinauta THANK YOU voru stórar sjónvarpsstöðvar, stöðvar eins og BBC One, BBC Two, ProSieben og Nickelodeon.

THANK YOU endurhannaði allt útlit sjónvarpsstöðvarinnar MTV og var dómnefndin sammála um það að einfaldleikinn og afturhvarfið til fortíðarinnar hafi gengið fullkomnlega upp fyrir vörumerkið.

„Við kynntum MTV hugmyndina um að færa útlitið aftur til fortíðar og finna rætur þess frá níunda áratugnum. Að hafa einfaldan litaskala ásamt einföldum teikningum sem bregðast við tónlistinni á lifandi hátt.” segir Örn Ólason frá THANK YOU í tilkynningu..

Andreas Sjövall frá MTV tekur undir sama streng: „Okkur fannst THANK YOU vita upp á hár hvernig tónlistarstöð á að vera, hugmyndin er skemmtileg og það er hvetjandi að vinna við hana á hverjum degi.”

THANK YOU sérhæfir sig í lifandi grafík og hannar og framleiðir sjónrænar lausnir fyrir hinn alþjóðlega sjónvarps-, kvikmynda- og auglýsingamarkað. Eigendur THANK YOU eru Örn Ólason, Anders Frandtsen og Esben Jørgensen

Fyrirtækið sem er staðsett í Kaupmannahöfn hefur einnig unnið fjöldann allan af auglýsingum fyrir íslensk fyrirtæki.  Má þar m.a. nefna nýtt útlit fyrir sjónvarpsstöðina SkjáEinn sem og auglýsingar fyrir Ölgerð Egils Skallagrímssonar og Símann.

THANK YOU var einnig tilnefnt til verðlauna á Promax/BDA hátíðinni fyrir nýja útlit SkjásEins.