María Hrund Marinósdóttir er fædd og uppalinn í vesturbæ Reykjavíkur. Hún er nýráðin markaðsstjóri Strætó en hún segist alltaf hafa haft áhuga á bíllausum lífsstíl.

„Þetta leggst vel í mig því ég hef mjög mikla trú á mikilvægi almenningssamgangna, og þess vegna finnst mér þetta spennandi. Ég held það séu alveg gríðarleg tækifæri í að efla almenningssamgöngur á Íslandi, því við eigum svo mikið inni,“ segir María Hrund, sem kemur inn samfara breytingum hjá fyrirtækinu.

„Þetta var í rauninni bara hlutastarf áður, en nú tók Strætó þá ákvörðun að leggja töluvert meiri áherslu á markaðsmál og réð þar með sagt markaðsstjóra í fullt starf. Ég held að nú sé jarðvegur fyrir því að efla ímynd Strætó, markhópunum er að fjölga, það er ekki bara eldra fólk og nemar sem taka strætó, heldur er fólk á öllum aldri og í öllum stöðum samfélagsins að verða að markhópi.“

María Hrund hefur unnið við markaðsmál síðan hún kláraði stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, bæði fyrir fjölmiðla, auglýsingastofur og einnig við markaðsmál, en árið 2007 hóf hún störf fyrir VÍS. Fyrir þremur árum tók hún sæti í stjórn ÍMARK, samtaka markaðsfólks og í vor varð hún formaður samtakanna.

„Svo hef ég mikinn áhuga á veiði, bæði skotveiði og laxveiði og svo er ég á kafi í crossfit. En eitt af því helsta sem ég stunda í mínum frítíma er spuni sem ég hef verið að læra hjá Improv Ísland. Þar fæ ég tækifæri til að bulla og hlæja með skemmtilegu fólki sem mér finnst vera gríðarlega mikilvægt í lífinu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .