Þórey S. Þórðardóttir tók við starfi framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða fyrr á þessu ári. Áður hafði Hrafn Magnússon gegnt starfinu í 36 ár. Í viðtali við Viðskiptablaðið er Þórey spurð að því hvort hún sé ekki komin í algjöran karlaheim, í framlínu lífeyrissjóðanna.

„Ef horft er á fjárfestingarhluta lífeyrissjóðanna þá er hann skipaður körlum að stærstum hluta. Það er þó að einhverju leyti að breytast. Þegar við skoðum mýkri málin, réttindamálin, starfsendurhæfingu og slíkt, þá er kynjahlutfallið alveg öfugt. Þetta myndi ég vilja sjá breytast. Að konurnar komi sterkari inn í fjárfestingarnar. Það yrði gott, þær hugsa aðeins öðruvísi og meira vægi væri við mat á hlutunum. Að sama skapi held ég að það sé gott að karlmennirnir komi að réttindahlutanum,“ segir Þórey.

Um framvarðarsveit lífeyrissjóðanna segir Þórey það ekki öðruvísi þar en í fjármálakerfinu og víðar í atvinnulífinu. „Alls staðar þar sem eru á annað borð einhver fjárhagsleg völd, þar eru karlar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.