Landspítalinn þarf 1,4 milljarða til tækjakaupa á næsta ári. Þetta kemur fram í ítarlegri greiningu í Morgunblaðinu í dag. Þar er rætt við Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóra kvenna og barnasviðs og heilbrigðis og upplýsinjgatæknideildar Landspítalans.

„Eitt tæki sem við verðum að fá óháð peningum er veirurannsóknartæki sem kostar 50 til 60 milljónir. Þá þurfum við nýtt æðaþræðingartæki í Fossvoginn sem kostar um 200 milljónir og nýtt segulómunartæki sem yrði til viðbótar vegna álags. Það kostar líka um 200 milljónir. Það þarf að ráðast í endurnýjun á speglunarbúnaði fyrir 150 milljónir og að halda áfram að endurnýja svæfingarvélar. Þá þarf líka nýja hjartsláttarmónitora og margt fleira,“ segir Jón við blaðið

Jón segir að gerður hafi verið listi yfir nauðsynleg tækjakaup árið 2014 og til þeirra þurfi um 1,4 milljarða króna. Þá þurfi um milljarð hvort árið 2015 og 2016. „Milljarður á ári til að endurnýja tækjakostinn er að okkar mati lágmark. Það er mjög algengt að norrænu sjúkrahúsin miði við að 3% til 5% af veltu fari til tækjakaupa. Með svoleiðis viðmið ætti Landspítalinn að hafa 1,5 til 2 milljarða á ári til tækjakaupa,“ segir hann.