Landspítalinn er fjölmennasti vinnustaður landsins og meðal stærstu liða í fjárlagafrumvarpi hverrar ríkisstjórnar. Kjaramál á spítalanum hafa löngum verið í umræðunni – einna mest þegar læknar fóru í verkfall sem stóð frá 27. október 2014 fram í janúar árið eftir. „Hins vegar héldu önnur verkföll áfram á eftir og kláruðust að morgni 28. október 2015,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Vinnudeilurnar stóðu því í ár og dag á spítalanum. Í kjölfarið virðist sem laun lækna séu á þeim stað að þeir geta vel við unað. Aðra sögu er hins vegar að segja af öðrum stéttum á spítalanum. Hjúkrunarfræðingar, fjölmennasta stéttin á spítalanum, starfa til að mynda í skugga gerðardóms. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir spítalann.

„Það er það. Ég held að það ástand sem er í kjaramálum hjúkrunarfræðinga sé ekki gott. Við sjáum að mönnun margra stétta er erfið en ég ætla að nefna hjúkrunarfræðinga fyrst. Þriðjungur starfsmanna spítalans eru hjúkrunarfræðingar. Við vitum að það er verið að mennta 120 til 130 hjúkrunarfræðinga á ári. Við þurfum um það bil 200. Þar er strax halli. Auk þess eru stórir hópar hjúkrunarfræðinga að fara á eftirlaun og til viðbótar er áskorun að halda í þá hjúkrunarfræðinga sem fyrir eru. Það er flókið, en mjög mikilvægt, að bregðast við þessu. Þar er mikilvægt að bæta starfsumhverfi og aðstæður. En við þurfum líka að bæta kjör og laða fleira fólk inn í þessar stéttir,“ segir Páll.

Vandamál Páls er hins vegar að Landspítalinn er ekki eiginlegur samningsaðili við starfsfólk spítalans. Það er á hendi ríkisins. „Við viljum hafa meiri aðkomu að samningsgerðinni varðandi þarfir okkar vinnustaðar. Það er til dæmis mjög erfitt fyrir okkur að gera stofnanasamninga sem eiga að vera umfram lágmarkskjarasamninga nema við fáum það bætt. 70% af rekstrarfé spítalans fara í laun. Það eru tugir milljarða þannig að hvert prósent er að þeirri stærðargráðu að það þarf næstum að gera ráð fyrir því í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins. Við höfum ekkert svigrúm en erum markvisst að reyna að bæta kjör, sérstaklega þar sem við sjáum að gengur erfiðast að ráða. Við fáum til dæmis yfirleitt fleiri en eina og fleiri en tvær umsóknir um störf hjúkrunarfræðinga í dagvinnu en erum heppin ef við fáum eina umsókn um vaktavinnustarf. Því er alveg ljóst að þar þarf að breyta kjörum og breyta vinnuaðstæðum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .