Liðlega fimmtungur af heildarskuldum sveitarsjóðs Kópavogsbæjar, eða um 6,4 milljarðar króna af 28,8 milljarða heildarskuldum, er við erlendar lánastofnanir. Fyrir liggur að Kópavogsbær þarf að endurfjármagna erlend lán upp á um 5,5 milljarða króna strax á næsta ári eða sem nemur 19% af heildarskuldum bæjarins. Þetta kemur fram í svari bæjarins við fyrirspurn innanríkisráðherra um skuldir sveitarfélaga og endurfjármögnun þeirra en tekið er fram að að óbreyttu eigi þetta að vera hámarksþörf fyrir endurfjármögnun. Óvíst er hvort Kópavogsbæ muni takast að endurfjármagna lánin erlendis og hefur seðlabankastjóri m.a. skýrt hluta af veikingu krónunnar að undanförnu með því að fyrirtæki og sveitarfélög hafi einfaldlega ekki getað endurfjármagnað erlend lán. Það myndi þá væntanlega þýða að Kópavogsbær þyrfti að sækja sér umrædda fjárhæð á innlendum lánamarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.