Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem hefur ekki innleitt lög sem ætlað er að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga. Skattaumgjörð þeirra er óhagstæðari hérlendis en víða annars staðar og afgreiðsla dvalar- og atvinnuleyfa tekur lengri tíma. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs Íslands , sem fjallar um umhverfi erlendra sérfræðinga á Íslandi.

Í skoðuninni segir að með aukinni alþjóðavæðingu sækist fyrirtæki í auknum mæli eftir að ráða erlenda sérfræðinga. Ísland standi höllum fæti í samkeppni um sérhæft starfsfólk, meðal annars vegna takmarkaðs framboðs alþjóðlegra skóla og gjaldeyrishafta.

Samkvæmt Viðskiptaráði er nauðsynlegt að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga hér á landi til að alþjóðleg atvinnustarfsemi geti vaxið hérlendis.

Í því samhengi megi helst nefna fjóra þætti. Samræmingu við önnur Norðurlönd í löggjöf um skattalega hvata, skjótvirkara afgreiðsluferli fyrir dvalar- og atvinnuleyfisumsóknir og aukið framboð alþjóðlegs náms á grunnskólastigi. Þá er mikilvægt að lágmarka neikvæð áhrif gjaldeyrishafta.

Endurbætur á þessum sviðum myndu færa Ísland framar meðal þjóða í samkeppni um alþjóðlega sérfræðinga og styrkja þannig grundvöll langtímahagvaxtar.