Það þarf að byggja 180 til 380 ný hótelherbergi árlega á árunum 2012 til 2030 til að standa undir ferðamannastraumi til landsins. Þetta kemur fram í greinargerð sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir Reykjavíkurborg og fjallað er um í Fréttablaðinu í dag. Þetta má orða sem svo að fjölga þurfi um eina Hótel Sögu árlega, miðað við neðri mörkin.

Í dag er gert ráð fyrir að hótelherbergjum í Reykjavík fjölgi um rúmlega 1.500 á næstunni. Sú fjölgun dugar í fjögur til níu ár ef marka má greinargerðina. Við vinnslu greinargerðarinnar var tekinn saman sá fjöldi gistirýma sem þegar er til staðar og eru niðurstöðurnar þær að á höfuðborgarsvæðinu séu nú alls 182 gististaðir í rekstri. Þar af eru 145 gistiheimili eða íbúðahótel en 37 hótel eða hostel.

Forsendur greinargerðarinnar eru að árleg fjölgun ferðamanna verði á bilinu fimm til sjö present árlega fram til ársins 2030. Miðað er við sömu og betri nýtingu gistirýma en er í dag. Frá árinu 1990 hefur vöxturinn í fjölda ferðamanna að jafnaði verið 6,3%. Fjöldi ferðmanna sem sækja landið heim hefur fjórfaldast á tveimur áratugum en í fyrra fjölgaði þeim um 15.6% frá fyrra ári.