Jón Snorri Snorrason, fyrrverandi stjórnarformaður og einn eigenda iðnfyrirtækisins Sigurplasts og lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni dæmdur til að greiða Arion banka 191,5 milljónir króna ásamt vöxtum. Frá dragast 42 milljónir króna sem greiddar voru inn á lánið. Jón Snorri tók lánið hjá Spron í nóvember árið 2008. Lánið lenti í vanskilum í maí árið 2009. Jón Snorri krafðist sýknu í málinu og hélt því fram að hann hafi aldrei fengið lánið. Jón Snorri hlaut sex mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir skilasvik í Hæstarétti í fyrrahaust.

Fram kemur í máli Arion banka gegn Jóni Snorra að þegar skilanefnd tók yfir rekstur Spron í mars árið 2009 fór rekstur sparisjóðsins undir Dróma. Lánið sem áður var í eigu Spron er fór í hendur Arion banka í enda janúar á þessu ári. Fram kemur í dómi héraðsdóms að Jón Snorri hafi samið um skilmálabreytingu lánsins í desember árið 2008. Lánið hafi verið með gjalddaga 17. maí 2009 en farið í vanskil. Hinn 29. janúar 2010 hafi hann greitt inn á lánið 42.000.000 króna með afsali á fasteign í Reykjavík. Eftirstöðvar skuldarinnar séu hins vegar í vanskilum.

Kannast ekki við 190 milljóna króna lán

Um rök Jóns Snorra segir á vef héraðsdóms:

„Stefndi byggir á því að hann hafi aldrei fengið neitt um það frá móttakanda lánsbeiðni að hann hafi fengið lán það sem hann hafi sótti um skv. fyrirliggjandi lánsumsókn t.a.m. hafi andvirði þess ekki verið greitt inn á reikning þann sem greiða hafi átt lánið inn á. Stefndi veki athygli á því að ekki sé líklegt að meintur lánveitandi hafi átt fjármuni til að lána á þessum tíma, íslenska bankakerfið fallið að mestu og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., móðurfélög SPRON verðbréfa hf., í raun  gjaldþrota eins og síðar hafi komið í ljós. Stefndi hafi verið krafinn um andvirði hins meinta láns og á árinu 2010 hafi hann greitt inn á hið meinta lán til Dróma hf. í þeirri góðu trú að hann skuldaði andvirði þess, skuldlausa fasteign sína að Álftamýri 37, Reykjavík. Stefndi hafi talið að með greiðslunni væri hann að gera upp andvirði hins meinta láns til fullnaðarloka. Þannig hafi stefndi orðið mjög hvumsa við, þegar stefna í málinu hafi komið fram. Krafa stefnanda sé byggð á lánasamningi en samningurinn sé ekki lagður fram heldur sé lögð fram einhliða yfirlýsing móttakanda lánsbeiðni um að hann hafi veitt stefnda lánið. Þannig sé ekki lagður fram lánssamningur sem byggt sé á í málinu um sönnun á meintri skuld stefnda og ekki séu lögð fram nein gögn um að lánið hafi raunverulega verið greitt út, enda hafi stefndi aldrei fengið neitt um að svo hafi verið og ekki hafi andvirði lánsins verið greitt inn á reikning hans eins og skjöl beri með sér að hafi átt að gera. Þannig telji stefndi að ósannað sé með öllu í málinu að hann skuldi stefnanda og því eigi að sýkna hann af öllum kröfum í málinu. “

Þá taldi Jón Snorri að honum hafi aldrei verið löglega birt stefna í málinu. Lögmaður hans hafi mætti til þingfestingar málsins vegna þess að stefna hafði verið sett í póstkassa stefnda á heimili hans. Stefnan sé birt eins og sjá megi fyrir öðrum stefnuvotti. Þetta telji hann löglausa stefnu.

Héraðsdómur segir að þrátt fyrir rök Jóns Snorra liggi fyrir lánaumsókn hans til SPRON verðbréfa hf., dagsett 18. nóvember 2008, um lán upp á 191,5 milljónir króna. Þá liggi fyrir í málinu staðfesting SPRON verðbréfa hf., dagsett sama dag og lánsumsóknin, um samþykki á umsókninni. Þá liggi sömuleiðis fyrir í málinu samkomulag undirritað af Jóni Snorra og SPRON verðbréfum, 9. desember 2008, um breytingar á skilmálum lánsins, þar sem vísað er til láns sem honum hafi verið veitt 17. nóvember 2008 upp á 191,5 milljónir króna. Að því sögðu teljist það nægilega sannað að Jón Snorri hafi fengið lánið hjá Spron.