*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 4. febrúar 2014 20:18

Þarf að gera upplifun ferðamanna betri

Björn Steinbekk segir að ekki sé hægt að hrúga hingað tveimur milljónum ferðamanna án þess að skipuleggja ferðaþjónustuna í heild.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Björn Steinbekk, framkvæmdastjóri Sónar hátíðarinnar, hefur sterkar skoðanir á því hvað þurfi til að bæta afkomu í ferðaþjónustu hér á landi. Hann segir að í sinni vinnu með Sónar hafi fyrirtæki og ferðaþjónustuaðilar verið misjafnlega viljug til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum. „Við værum til í að sjá aðeins meira af því að stofnanir, upplýsingavetur og fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu séu tilbúin að efla hátíðina með okkur. Ekki endilega sem kostunaraðilar heldur t.d. við það að kynna hátíðina og það sem hér er í boði í febrúar. Við viljum starfa með aðilum þannig að þeir sem geta séð hag sinn í því að hátíðin fari fram á Íslandi vinni að því með okkur að efla hana, kynna og gera það aðlaðandi að sækja Ísland heim á þessum árstíma,“ segir Björn. 

Hann bendir á að Iceland Naturally hafi til dæmis verið líflegt í að tala um hátíðina á sínum samfélagsmiðlum, koma þessu á framfæri og segja sínum tengiliðum í Ameríku að það sé eitthvað að gerast hérna í febrúar. „Það ber árangur, en við viljum endilega sjá fleiri með okkur. Icelandair er okkar samstarfsaðili, og hefur staðið sig frábærlega. Við erum að selja 500-600% fleiri pakkaferðir en síðast – en samt eru þeir ekki að fá alla umferðina í sínar vélar. Reykjavíkurborg hefur sömuleiðis ákveðið að styðja við hátíðina til næstu fjögurra ára. Það skiptir okkur gríðarmiklu máli að hafa þennan stuðning á heimavelli, að Icelandair og borgin sýni okkur þetta traust og að við getum unnið með borgaryfirvöldum að því að auka straum ferðamanna til landsins á þessum árstíma. Það sem ég er að segja er að ferðaiðnaðurinn, upplýsingaveitur og þjónustuaðilar, hótelin og rútufyrirtækin, þurfa tala betur saman. Hvernig getum við best tryggt að gestir sem hingað koma fái sem mest út úr heimsókn sinni til landsins, um leið og við skoðum hvernig við getum fengið fólkið til að taka rútuna þína, til að taka þessa skoðunarferð o.s.frv. Hvernig getum við séð til þess að þegar þau vakna klukkan 9 eða 10 á hótelinu ykkar þá bíði eftir þeim eitthvað til að gera. Hvernig getum við búið til meiri pening út úr þeim ferðamönnum sem eru að koma í staðinn fyrir að hugsa alltaf um hversu margir ferðamenn eru að koma,“ segir Björn.  

Hann bendir á að Ísland sé lítið land með gríðarlega náttúrufegurð og gríðarlega möguleika. Hér sé bara einn hringvegur í kringum landið. Þetta snúist því allt um að búa til upplifun og verðmæti, ekki bara fyrir okkur, heldur líka ferðamanninn. „Við þurfum aðeins að fara að hugsa hvað við viljum gera. Við getum ekki hrúgað hingað tveimur milljónum ferðamanna án þess að við förum betur yfir hvernig staðið er að ferðaþjónustunni í heild. Annað gengur ekki upp. Það mun enginn geta keyrt upp í Munaðarnes í sumarbústaðinn sinn eftir tíu ár ef það koma tvær milljónir ferðamanna hingað. Þetta vitum við. Þess vegna þurfum við að vinna betur saman til að skoða hvernig við getum fengið meira út úr þeim ferðamönnunum sem hingað koma. Gert upplifun ferðamannsins betri, þjónustustigið hærra þannig að hann sé ekki bara tilbúinn að eyða meiru hérna á Íslandi. Þetta snýst ekki alltaf um magn. Þetta snýst um gæði,“ segir Björn. 

Stikkorð: Björn Steinbekk