Yfirskattanefnd hefur úrskurðað að leigusali sem fékk um 2 milljónir í tekjur af útleigu Airbnb íbúðar í sinni eigu í gegnum hlutafélag þurfi að greiða skatt af þeim sem persónulegar tekjur auk fjórðungsálags vegna hærri tekjuskatts- og útsvarsstofns leigusalans.

„Þá þóttu skýringar kæranda á fyrirkomulagi starfseminnar og aðkomu X ehf. að henni með nokkrum ólíkindum, svo sem nánar var rökstutt,“ segir í úrskurði nefndarinnar . „Var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu hennar um niðurfellingu 25% álags.“

Segir nefndin að leigusalinn hafi gefið tekjurnar ranglega upp til skatts með því að segja að tekjur af útleigu íbúðarinnar árið 2014 sem hún fékk inn á sinn persónulega reikning væru endurgreiðslur á láni hennar til félagsins.

Airbnb heimilar ekki að félög leigi í gegnum síðuna svo leigusalinn tók við greiðslunum í gegnum persónulegan Paypal reikning sinn fyrir hönd félagsins. Tók yfirskattanefnd skýringarnar ekki til greina, en leigusalinn hafði ekki getið kröfu á félagið í fyrri skattframtölum auk þess að ekki var getið um tekjurnar af útleigunni í reikningum félagsins.

Niðurstaðan var því sú að leigusalinn, sem gefið er upp að er kvenkyns, bæri að greiða skatt af upphæðinni.