Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við Viðskiptablaðið að bættum lífslíkum þjóðarinnar og áhrifum þess á lífeyriskerfið.

Ný aðferðafræði Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga við að reikna lífslíkur sem horfir fram í tímann býður staðfestingar ráðuneytis Bjarna. Breytingin mun að jafnaði hækka skuldbindingar lífeyrissjóðanna um 10%.

„Það er nokkuð ljóst að með því að fleiri ná hærri aldri sem eru á lífeyri þá verða útgjöld lífeyrissjóðanna meiri og það hlýtur að leiða til þess að lífeyrisskuldbindingin er þyngri fyrir sjóðina. Það væri óvarlegt af okkur að horfa framhjá því að lífaldurinn er að hækka á Íslandi. Við því verður einfaldlega bara að bregðast með því að horfast í augu við staðreyndir og ef það þýðir að það leiði til meiri lífeyrisbyrði hjá lífeyrissjóðunum að þá er það bara þannig," segir Bjarni.

Sjá einnig: Bregðast þurfi við hundruð milljarða hækkun

Hins vegar sé staða lífeyriskerfisins heilt yfir sterk. „Ég myndi nú ekki hafa áhyggjur af því svona til lengri tíma vegna þess að það eru allar vísbendingar um að núverandi lífeyriskerfi muni styðja mjög myndarlega við bakið á þeim sem að geta nýtt starfsævina að fullu á vinnumarkaði. Þeir sem eru sömuleiðis með viðbótarlífeyrissparnaðinn munu sumir hverjir verða með hátt í 100% af meðalævitekjum sínum."

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er boðuð gerð grænbókar um lífeyriskerfið sem mun m.a. skoða „nauðsynlega hækkun lífeyrisaldurs og sveigjanleika til töku lífeyris í samhengi við hækkandi lífaldur," eins og það er orðað í sáttmálanum.

Hækkun lífeyristökualdursins hefur verið til umræðu um margra ára skeið. Það kom síðast af alvöru til álita við upphaf síðasta kjörtímabils árið 2017. Þá hugðist ríkisstjórnin innleiða þá breytingu að lægri mörk lífeyrisaldursins hækkuðu yfir 12 ára tímabil í skrefum úr 67 ára í 70 ára, en féll að lokum frá þeim áformum.

Grænbókin er að sögn Bjarna hluti af breytingaferli á lífeyriskerfinu sem staðið hefur yfir í á annan áratug. „Grænbókin er í rauninni framhald af vinnu sem upphaflega fór af stað árið 2009 við heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu. Skýrslu var skilað árið 2016 sem leiddi til breytinga í lífeyrismálum og við höfum verið aðeins að vinna úr áfram en við höfum aðeins strandað með frekari úrvinnslu þeirrar vinnu og þurfum að endurræsa heildarendurskoðunina með þessari grænbók," segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .