Helga Árnadóttir tók við starfi framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar í desember árið 2013. Þar áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri VR og hjá Icelandair. Samtök ferðaþjónustunnar eru tiltölulega ung samtök, stofnuð árið 1998. Helga tók við starfinu af Ernu Hauksdóttur, sem hafði gegnt því frá stofnun.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem skapar í dag mestar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Vöxturinn í greininni hefur verið mjög mikill undanfarin ár og nú eru árlega slegin met í komum erlendra ferðamanna til landsins.

„Þetta er að öllu leyti mjög spennandi starf en líka mjög krefjandi," segir Helga. „Ferðaþjónustan er mjög vaxandi atvinnugrein sem þýðir að tækifærin eru mörg en áskoranirnar að sama skapi einnig svo sannarlega til staðar."

Samtök ferðaþjónustunnar eru hagsmunasamtök og eitt af meginhlutverkunum er því að gæta hagsmuna félagsmanna, fyrirtækja í greininni, og tryggja þeim samkeppnishæf rekstrarskilyrði.

„Okkar starf snýst ekki síst um að treysta grunninn svo greinin geti vaxið og dafnað enn frekar. Í þeirri vinnu felst mjög margt eins og til dæmis að vera í góðum samskiptum við stjórnvöld, skipulagsyfirvöld og fleiri. Það er mjög mikilvægt að við nýtum öll þau tækifæri sem í greininni felast og þess vegna er brýnt að efla sameiginlegan slagkraft. Þannig tryggjum við enn frekari tekjur af greininni sem skilar sér svo um munar til þjóðarbúsins.

Hugsa þarf til ferðaþjónustunnar eins og til annarra undirstöðuatvinnugreina við almenna ákvörðunartöku er snerta greinina."

Nánar er fjallað um málið í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .