Laimdota Straujuma, forsætisráðherra Lettlands var í viðtali við Viðskiptablaðið í vikunni en hún var hér á landi í tilefni af ráðstefnunni Northern Future Forum.

Samhliða ráðstefnunni átti Straujuma fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra þar sem fjölmörg mál báru á góma. „Við ræddum þróun Evrópuhagkerfisins og stöðu Íslands í því auk þess sem við ræddum um málefni flóttamanna,“ segir hún. „Einnig fórum við yfir ástandið í Úkraínu, Sýrlandi og Rússlandi.“

Spurð að því hvort það sama hafi komið til umræðu á fundi hennar með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir hún að þau hafi rætt meira um stöðu Bretlands innan Evrópusambandsins. „Bretar munu bráð­um ganga til atkvæða um það hvort þeir vilji áfram vera innan Evrópusambandsins, þannig að það er af nægu að taka. Við Cameron erum sammála um mikilvægi fjórfrelsisins – þ.e. frjáls flutnings fólks, fjármagns, varnings og þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Við þurfum að viðhalda því. En ég er einnig sammála honum í því að ég tel að við þurfum að losa um regluverk innan Evrópusambandsins. Við þurfum að ræða betur hvernig regluverk er á milli landa innan ESB og utan þess.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .