Nicolai Tangen, verðandi forstjóri norska olíusjóðsins, hefur samþykkt að selja meirihluta í vogunarsjóði, sem hann stofnaði, til að milda umræðuna um ráðningu hans. Financial Times segir frá.

Ráðning Tangen, sem tekur við forstjórastólnum í september næstkomandi, hefur mikið verið í umræðunni í Noregi vegna meints hagsmunaárekstrar sökum eignarhalds hans í vogunarsjóðinum AKO Capital. Tangen á tæp 80% af hlutafé AKO Capital sem þykir einn farsælasti vogunarsjóður Evrópu.

Sjá einnig: Skandall skekur norska olíusjóðinn

Tangen hefur samþykkt að lækka atkvæðisrétt sinn í vogunarsjóðnum úr 78% niður í 43% og að láta Erik Keiserud, lögfræðing og fyrrum stjórnarformann olíusjóðsins, starfa sem sjálfstæðan fjárhaldsmann eigna sinna í AKO.

Oystein Olsen, seðlabankastjóri norska seðlabankans, leiddi ráðningarferlið. Hann viðurkenndi að öll neikvæða umræðan í kringum ferlið sé áhyggjuefni. „Þetta hefur verið erfitt fyrir bankann og erfitt fyrir mig,“ hefur FT eftir Olsen. Hann sagði þó að ráðningarsamningur Tangen sem birtur var í dag væri traustvekjandi.

Í samninginum kemur fram að allur arður sem kemur frá 43% hlut Tangen í AKO muni renna til AKO Foundation, sjóðss sem gefur til góðgerðmála tileinkuðu menntastarfi og listrænum verkefnum.

Tangen hefur sagt að lífstíll hans muni þurfa að aðlagast úr því að vera framkvæmdastjóri vogunarsjóðs staðsetts í London í að vera „opinber starfsmaður í Noregi“. Tangen mun fá um 6,65 milljónir norskra króna, sem jafngildir 93 milljónum íslenskra króna, í árslaun. Hann býst þó við að þurfa að greiða 70 milljónir norskra króna í auðlegðarskatt þegar hann flytur aftur til Noregs.

Ráðningarferlið vakti mikla reiði Norðmanna en Yngve Slyngstad, fráfarandi forstjóri olíusjóðsins, viðurkenndi að hann hafi algjörlega klúðrað málum þegar hann þáði sæti í einkaflugi sem Tangen greiddi fyrir eftir fundarhöld á vegum þess síðarnefnda í Bandaríkjunum.