Samhliða 120 milljóna dollara lánalína með 90% ríkisábyrgð hefur Icelandair aðgang að lánalínum frá Íslandsbanka að fjárhæð 30 milljónum dollara og 22 milljónum dollara frá Landsbanka. Þetta kemur fram í skilmálum fyrir ríkisábyrgðinni sem fjármála og efnahagsráðuneytið birti í morgun.

Skilyrði fyrir að draga á þessar lánalínur eru að eiginfjárhlutfall Icelandair sé ekki lægra en 8% og ennfremur að það hafi ekki verið lægra en 90 milljónir dollara við lok síðasta ársfjórðungs.

Í útboðskynningu Icelandair kom fram að ásamt lánalínu bankanna hafi félagið samið við lánardrottna um 24 mánaða greiðslufrystingu að fjárhæð rúmlega sjö milljörðum króna.

Lánalína sem ber ríkisábyrgð fylgja hins vegar strangari skilyrði. Ríkisábyrgðin er meðal annars háð því að félagið hafi að fullu nýtt, eða muni nýta að fullu á næsta 31 degi, frjálsa sjóði og aðrar lánalínur umfram skilgreinda lágmarkssjóðsstöðu sem er 20 milljónir dollara. Þá tekur ríkið veð í vörumerki, bókunarkerfi, léni Icelandair sem og lendingarleyfum í New York og London ef það er unnt.

Sjá einnig: Ríkisábyrgðalög gildi ekki um Icelandair

Einnig kemur fram að félagið þurfi að vera skrá í á verðbréfamarkað í Kauphöll Íslands og að höfuðstöðvar móðurfélags og flugrekstrar verði á Íslandi á meðan ábyrgðartíma varir.

Icelandair mun greiða LIBOR grunnvexti að viðbættu 2,85% álagi fyrir ríkisábyrgðina. Félaginu verður heimilt að velja á milli 3 eða 6 mánaða LIBOR grunnvaxta í samræmi við vaxtatímabil.

Flugfélagið mun einnig greiða ríkinu ábyrgðargjald á meðan lánalínan er í gildi sem nemur 0,25% á ársgrunni af ábyrgðarfjárhæðinni. Til viðbótar við ábyrgðargjald er notkunarálag og fer það eftir því hve há fjárhæð er ádregin hverju sinni. Notkunarálag reiknast af stöðu ádráttar í lok hvers mánaðar og fer hækkandi eftir fjárhæð ádráttar, þannig:

  • Ef samningarnir eru ádregnir USD 0-40 milljónir, þá er notkunarálag 0,75%.
  • Ef samningarnir eru ádregnir USD 40-80 milljónir, þá er notkunarálagið 0,875%.
  • Ef samningarnir eru ádregnir umfram USD 80 milljónir af lánsfjárhæð samninganna, þá er notkunarálagið 1,00%.