Arion banki þarf ekki að endurgreiða félaginu BBR ehf 134 milljónir króna, samkvæmt dómi héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Eigendur BBR eru bræðurnir í Bakkavör, þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir.

Fjárhæðin er tilkomin vegna hlutafjárhækkunar Exista og tilrauna þeirra bræðra til að kaupa Exista síðla árs 2008. Við hlutafjárhækkunina keypti BBR hlutabréf Exista fyrir 50 milljarða króna að nafnvirði en greiddi einn milljarða fyrir. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra úrskurðaði árið 2009 að hlutafjárhækkunin hafi verið ólögmæt. Lýður, sem var stjórnarformaður Exista um þetta leyti, var í kjölfarið ákærður við annan mann fyrir brot á hlutafélagalögum og fyrir að hafa skýrt rangt og villandi frá hlutafjárhækkuninni. Lýður var í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. maí í fyrra dæmdur til að greiða tvær milljónir króna vegna hlutafjárhækkunarinnar.

Talið var að við hlutafjáraukninguna hafi skapast yfirtökuskylda og þurfti BBR að kaupa hlut Arion banka í Exista fyrir 134 milljónir króna. Um hálfi ári eftir hlutafjárhækkunina voru kaupin ógild og yfirtökuskyldan sömuleiðis. Arion banki heldur hins vegar enn eftir kaupverðinu, samkvæmt dómi héraðsdóms.