Það er vel mögulegt að koma í veg fyrir alvarlega mikla hlýnun loftslags án þess að draga mikið úr alþjóðlegum hagvexti. Þetta er fullyrt í nýrri rannsókn um hnattræna hlýnun sem gefin var út nýlega. Financial Times greinir frá þessu í dag.

Í rannsókninni er enn fremur greint frá því að draga þurfi algjörlega úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir lok þessarar aldar en hún var unnin á vegum Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna og kynnt formlega í Kaupmannahöfn í dag.

Í rannsókninni segir að draga þurfi úr hlýnuninni þannig að hún verði ekki meiri en tvær gráður að meðaltali frá iðnbyltingunni en nú þegar hefur loftslag hlýnað að jafnaði um eina gráðu frá þeim tíma. Þá segja höfundar rannsóknarinnar að það þurfi ekki nema 0,06 prósenta niðurskurð í heimsneyslunni til að ná því markmiði.