Sindri segir notagildi metanóls sem eldsneytis mikið. Það sem geri metanól svo einstakt er að þegar það er framleitt úr raforku verði það jafn umhverfisvænt og ef raforkan er notuð beint.  Ólíkt rafbílum þurfi ekki þungar og plássfrekar rafhlöð­ ur í bíla knúna metanóli.

„Til nánustu framtíðar eru smábílar þeir einu sem er raunhæft að knýja með rafhlöðum. Það er hinsvegar óhagkvæmt að búa bíla stórri rafhlöðu til þess að svara öllum þörfum. Betra er að nota litla rafhlöðu og setja í bílinn efnarafal eða mótor sem knúinn er metanóli, framleiðir rafmagn fyrir bílinn og kemur þér hvert sem þú vilt fara,“ segir Sindri.

„Stórir bílar og skip verða hinsvegar aldrei knúnir rafhlöðum með hagkvæmum hætti. Tesla boðaði til dæmis nýlega framleiðslu á flutningabíl, en það þyrfti tug tonna rafhlöðu í hann til þess að standa við yfirlýst markmið um flutningsgetu. Það hentar augljóslega ekki. Það er einnig ógjörningur að rafvæða skip sem þarf að halda úti dögum saman,“ segir Sindri. CRI hefur að sögn Sindra meiri kunnáttu og reynslu í framleiðslu endurnýjanlegs metanóls en nokkrir aðrir.

„Við getum því valið úr fjölda fyrirtækja til að vinna með og erum í þeirri stöðu að stilla upp með mörgum slíkum í dag.“ Aukin vitund um umhverfisvernd er að mati Sindra eitthvað sem hafi ýtt undir velgengni fyrirtækja eins og CRI, því almenningur sé í auknum mæli tilbúinn að borga meira fyrir græna vöru. „Plast hefur til dæmis hingað til mikið verið unnið úr olíu. Núna er það í auknum mæli unnið úr metanóli. Í Kína hefur orðið algjör bylting á þessu sviði. Þeir sem nota metanól í slíka vinnslu leita í auknum mæli í grænt metanól.“ Félagið stefnir á að ljúka á þessu ári samningum um að reisa 50 til 100 þúsund tonna verksmiðjur, annars vegar í Kína og hins vegar í Evrópu. Vöxtur í spurn eftir metanóli í Evrópu er aðallega í eldsneyti en þó er jafnframt farið að horfa til efnaiðnaðar. Sömuleiðis er eftirspurnin að vaxa í Kína, í eldsneyti og efnaiðnaði.

„Við höfum líka verið að keyra metanólbíla frá Geely á Íslandi síðustu tvö árin með 100% metanólvélum. Fyrir ökumanninn er enginn munur á að keyra á metanóli eða bensíni. Fyrsta skrefið var tekið í kynningarskyni og til að byggja upp reynslu. Næst ætlum við að færa okkur upp á skaftið. Geely er jafnframt eigandi Volvo og Brimborg, umboðsaðili Volvo hér á landi, hefur verið að aðstoða okkur við að skipuleggja mun stærra verkefni þar sem 50 metanólbílar yrðu settir inn í flotaleigu Brimborgar til fyrirtækja. Geely sér sér líka hag í að fá reynslu á bílana í Evrópu til að greiða leið þeirra inn á Evrópumarkað.“

Á við 3.000 rafbíla

Fyrirséð er að spurn eftir endurnýjanlegu metanóli verði mikil á heimsvísu innan skamms. „Evrópureglugerðir og -lög gera ráð fyrir að 2020 verði endurnýjanleg orka 10% af notkun eldsneytis. Nú er búið að setja þak á notkun lífeldsneytis sem keppir við matvælaframleiðslu. Af þessum 10% mega því að hámarki 7% verða úr lífeldsneyti,“ segir Sindri.

„Ef olíufé­ lög, uppfylla ekki þessi ákvæði hljóta þau sektir. Árið 2020 er því útlit fyrir að það verði spurn eftir ígildi sex milljóna tonna af endurnýjanlegu metanóli í eldsneyti. Okkar ætlun er að um 2030 gætu verksmiðjur sem keyra á okkar tækni framleitt eitthvað af þeirri stærðargráðu. Þetta er mjög fjölþjóðlegt umhverfi sem við vinnum í og tækifærin í þessu eru gríðarleg. Við eigum von á að loka samningum um að minnsta kosti tvær verksmiðjur á þessu ári en þær yrðu komnar í gang eftir tvö ár,“ segir Sindri. Hann segir að ein 4.000 tonna verksmiðja eins og CRI hafi þegar reist jafngildi því að setja um 2.000 til 3.000 rafbíla á götuna í minni losun á koltvísýringi. „Hver rafbíll kostar ríkið auk þess eina til tvær milljónir í lægri skatttekjum. Engin innflutningsgjöld þarf að fella niður ef metanólið er notað til íblöndunar eða lífdísilframleiðslu, þar sem eldsneytið er notað á hefðbunda bíla sem bera öll venjuleg gjöld. Vörugjöld af bílum sem geta gengið fyrir hreinu metanóli eru hins vegar felld niður, allt að 1.250 þúsund krónum, en ekki virðisaukaskattur, svo tekjur koma inn í ríkiskassann.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .