Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, segir að samdrátt í innlendri nautakjötsframleiðslu megi rekja til aukinnar eftirspurnar eftir mjólkurafurðum. Það hafi orðið til þess að bændur slátra kúnum síður.

Innflutningur nautakjöts var tífallt meiri á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 en á sama tímabili í fyrra. Eftirspurn eftir kjötinu hefur aukist gífurlega á síðustu árum, ekki síst vegna fjölgunar ferðamanna, en íslenskir bændur anna ekki eftirspurninni.

Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Baldur að til þess að auka framleiðsluna þurfi að fá leyfi til að flytja inn erfðaefni, svo hægt sé að stækka holdanautastofninn.

Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, segir í samtali við Fréttablaðið að frumvarp sé nú í undirbúningi í ráðuneytinu þar sem innflutningur á erfðaefni til kjötframleiðslu verður heimilaður.