Margrét Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, hefur verið útnefnd áhrifamesta kona síðustu 200 ára, samkvæmt könnun sem Scottish Widows, 200 ára gamalt breskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í líftryggingum og lífeyrissparnaði, lét gera.

Fleiri atkvæði en Curie, Pankhurst og Nightingale

Margrét fékk fleiri atkvæði heldur en Marie Curie sem vann Nóbelsverðlaunin tvisvar, Emmeline Pankhurst sem stóð framarlega í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna, Florence Nightingale, fyrsta nútímahjúkrunarkonan, Rosa Parks, sem barðist fyrir mannréttindum í Bandaríkjunum og Móðir Teresa, sem einnig vann Nóbelsverðlaunin og hefur verið tekin í tölu dýrlinga Kaþólsku kirkjunnar.

Meira en 40% atkvæða í flokki stjórnmála

Í könnunni voru viðmælendur beðnir um að velja þær konur sem þeim þóttu hafa verið áhrifamestar á síðustu 200 árum í níu mismunandi flokkum. Í flokki stjórn- og heimsmála völdu 41% Thatcher sem þá áhrifamestu, meðan 28% kusu hana áhrifamestu konuna heilt yfir.

Amelia Earhart var valin áhrifamesta íþróttamanneskjan, Jane Austin sem áhrifamesta konan í heimi hugmynda og lista og Judi Dench sú áhrifamesta í leikrænum listum. Í heimi viðskipta var Anita Roddic, stofnandi Body Shop valin sú áhrifamesta og Simone de Beauvoir var valin sú áhrifamesta í hópi menntamanna. Áhrifamesti kvenkyns blaðamaðurinn var valin Kate Adie.

Bar ábyrgð á varanlegum breytingum

„Sérhver þeirra hefur borið ábyrgð á eða séð um varanlegar breytingar,“ sagði sagnfræðingurinn Suzannah Lipscomb.

„Thatcher, Pankhurst og Curie eru konur sem hægt er að vísa til með einu orði. Þær voru valdar því þær breyttu leikreglunum. Það er skilgreiningin á því að vera áhrifamikill.“

Listinn og hve margir kusu hverja er sem hér segir:

  • 28% - Margrét Thatcher
  • 24% - Marie Curie
  • 18% - Elísabet 2. Bretlandsdrottning
  • 17% - Díana prinsessa af Wales
  • 16% - Emmeline Pankhurst
  • 13% - Móðir Teresa
  • 8% - Viktoría Bretlandsdrottning
  • 7% - Rosa Parks
  • 6% - Oprah Winfrey