Eftir tímabil töluverðs slaka er farið að sjá merki um spennu á vissum sviðum hagkerfisins. Þetta kemur fram í nýrri Þjóðhagspá Íslandsbanka fyrir árin 2015 til 2017 sem birtist á hádegi í dag.

Hagvöxtur í núverandi uppsveiflu hefur verið lítill í sögulegu samhengi. Þjóðhagspá gerir ráð fyrir því að breyting verði í ár en spáð er 4,3% hagvexti fyrir árið 2015, 4,4% hagvexti árið 2016. Hagvöxtur verður síðan hægari á árinu 2017, eða 2,05%.

Þenslueinkenni eru orðin sýnileg á vissum sviðum, þ. á m. á vinnumarkaði og eignamarkaði. Innflutningur á vinnuafli mun draga úr launaskriði og þenslu á vinnumarkaði.

Gert er ráð fyrir því að verðbólga muni haldast nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans en aukast þegar líða tekur á spátímabilið (2015-2017) og fara nokkuð yfir verðbólgumarkmið bankans.

Losun fjármagnshafta skapar óvissu um þróun efnahagsmála þar sem um er að ræða afar stóra framkvæmd. Óvíst er þannig með hvaða hætti þær aðgerðir munu hafa áhrif á stöðugleika hagkerfisins til skemmri tíma litið þó að losun fjármagnshafta sé afar jákvætt skref fyrir íslenskt efnahagslíf og stór hluti af þeim þáttaskilum sem eru að eiga sér stað í hagkerfinu um þessar mundir.