Ráðstefnudeild the Economist er að undirbúa sína fyrstu viðskipta- og fjárfestingaráðstefnu sem haldin verður hér á landi og mun hún bera yfirskrifta First Iceland Business and Investment Roundtable, samkvæmt fréttatilkynningu. Ráðstefnan mun fara fram á Nordica Hotel þann 15. maí næst komandi.

Economist heldur árlega fjölda slíkra alþjóðlegra ráðstefna víða um heim sem þykja eftirsóknarverður vettvangur fyrir alþjóðlega fjárfesta og leiðtoga athafnalífsins.

Á ráðstefnunni, sem haldin er í samvinnu við Viðskiptaráð Íslands, verða þátttakendur í pallborðinu jafnt innlendir sem erlendir athafna- og stjórnmálamenn.

?Við munum nota hringborðsfundinn mjög vel til þess að ræða hvort ástandið í íslensku banka- og efnahagslífi sé raunverulegt alvöru óveður eða stormur í vatnsglasi,? segir ráðstefnustjórinn Nenad Pacek, sem er framkvæmdastjóri Evrópumála hjá the Economist Intelligence Unit í tilkynningunni.

Hringborðsumræðunum er ætlað að uppfylla þarfir stjórnenda og viðskiptaleiðtoga sem hafa áhuga á að efla og víkka sjóndeildarhring sinn í alþjóðlegu viðskiptalífi.

Á Economist-ráðstefnunni ræða Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar efnahagsmál Íslands.

Erlendir þátttakendur verða Bernt Reitan, aðstoðarforstjóri Alcoa, Thomas Pickering, aðstoðarforstjóri The Boeing Company, Jurgen Höfling, forstjóri DHL Nordic, Sven Estwall, forstjóri Norður Evrópudeildar Visa Europe, Neil Prothero, ritstjóri Economist og Economist Intelligence Unit og ráðstefnustórinn Nenan Pacek, Economist Intelligence Unit.

Íslensku þátttakendur hringborðsins verða, auk ráðherranna, Svafa Grönfeldt, aðstoðarforstjóri, Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri, Hannes Smárason, forstjóri, Halldór Kristjánsson, bankastjóri, Styrmir Gunnarsson, ritstjóri, Jón Sigurðsson, forstjóri og Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna.