Breska tímaritið The Economist mun halda alþjóðlega ráðstefnu á Íslandi, í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands, þann 15. maí á næsta ári, segir í tilkynningu.

Yfirskrift ráðstefnunnar er ?The First Business and Investment Roundtable with the Government of Iceland"

Ráðstefnan er ætluð frammámönnum úr stjórnkerfi og athafnalífi landsins, auk erlendra áhrifamann sem eiga eða vilja eiga góð samskipti við Ísland, segir í tilkynningunni. Ráðstefnan er skipulögð af KOM Almannatengslum.

The Economist hefur haldið fjöldann allan af slíkum ráðstefnum allt frá árinu 1956 og var sú síðasta haldin á Spáni í lok nóvember. Ráðstefnan er einskonar umræðuráðstefna þar sem þekktir stjórnendur fyrirtækja, innlendir sem erlendir, ræða efnahags- og viðskiptamál við ráðherra, seðlabankastjóra og pólitíska leiðtoga viðkomandi lands.

?Economist-ráðstefnur sem þessi vekja ætíð mikla athygli. Þær styrkja ímynd og ásýnd viðkomandi lands á alþjóðlegum vettvangi, treysta viðskiptatengsl og opna leið til að öðlast traust viðskiptasambönd. The Economist sendir fundarboð til um 15 þúsund stjórnenda um víða veröld," segir í tilkynningunni.

Það er ráðstefnudeild blaðsins, The Economist Conference Unit, sem annast skipulag og framkvæmd ráðstefnunnar í samvinnu við KOM.