The Sunday Times fjallar í dag um innlán íslensku bankanna og segir að ráðgjafar hvetji breska sparendur til að takmarka innlán sín hjá íslenskum bönkum við 35.000 pund, sem er sú fjárhæð sem tryggð er af ríkinu. Blaðið segir að Moody's hafi sagt í síðasta mánuði að staða íslensku bankanna sé viðkvæm.

Almenn aðvörunarorð sérfræðinga

Í fréttinni er rætt við tvo sérfræðinga, fyrir utan starfsmenn íslensku bankanna. Annar þeirra segir að margir hafi meira á reikningi Icesave en 35.000 punkd. Í ljósi aðstæðna á lánsfjármörkuðum segist hann ekki mundi hafa meira en 35.000 pund á reikningi hjá einum banka. Svo virðist sem hann sé að tala um banka almennt en ekki aðeins íslensku bankana.

Hinn sérfræðingurinn sem rætt er við segist ekki mundi ráðleggja neinum að leggja meira en 35.000 pund inn á einn reikning. Hann tekur fram að þetta eigi einnig við um breska banka.

Viðbrögð íslensku bankanna

The Sunday Times ræðir við fulltrúa Landsbankans vegna reikningsins Icesave og fulltrúa Kaupþings vegna Kaupthing Edge reikningsins. Báðir segja reikningana trausta, en í greininni segir að hraður vöxtur Kaupthing Edge hafi orðið til þess að fram hafi komið neikvæður samanburður við Northern Rock. Fulltrúi Kaupþings, Guðni Aðalsteinsson, hafnar slíkum samanburði og segir muninn á Kaupþingi og Northern Rock vera þann að Kaupþing hafi stóran fjárfestingarbankahluta.