Íslandi er haldið í gíslingu. David Cameron hyggst koma í veg fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið þar til Icesave skuldin hefur verið greidd. Þetta er yfirskriftin á skoðanaskrifum í The Wall Street Journal í dag.

Í greininni kemur fram að um leið og Evrópusambandið hafi gefið það út í Brussel að formlegar aðildarviðræður yrðu hafnar við Íslendinga í síðustu viku hafi umræða verið vakin á ný um Icesave. Það snúist um hver eigi að greiða framlag breskra yfirvalda sem gripu til þess örþrifaráðs að leysa  innistæðueigendur þar í landi út úr þeirri sjálfheldu sem þeir voru í með innistæður sínar á Icesave reikningum.

Vitnað er til orða David Cameron, forsætisráðherra Breta  sem sagði: „Bretland á að vera góður vinur Íslands og öflugur stuðningsaðili áframhaldandi stækkunar Evrópusambandsins.” Síðan bætti hann við: „En Ísland skuldar breska konungsdæminu 2,3 milljarða punda.... Við munum nota aðildarumsóknarferlið til að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar, því við viljum fá okkar peninga til baka.”

Í greininni er rakið hvernig fjármálaráðherrann Alistair Darling beitti hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi. Síðan hafi hann sjálfur ákveðið að greiða öllum breskum innistæðueigendum Icesave reikninga út inneign sína. Greint er frá viðbrögðunum á Íslandi við kröfum Breta og hvernig almenningur greiddi sitt atkvæði gegn tillögu ríkistjórnarinnar um endurgreiðslu Icesave skuldanna. Síðan segir: „Ef Bretland stendur fast á því að halda aðildarumsókn Íslands í gíslingu Icesave málsins, þá virðist líklegt að Íslendingar vilji fremur hætta við aðildaráform fremur en að borga reikning sem samsvarar meira en 40% af þjóðarframleiðslu landsins.”

Í lok greinarinnar er klikkt út með því að segja að þó Ísland myndi njóta margvíslegs ávinnings af því að komast inn í evruumhverfið, þá séu þeir kostir ekki nægilega mikil ástæða til að greiða herra Cameron lausnargjald.