Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, telur að bjarga hefði mátt Kaupþingi í kjölfar hrunsins, ef rétt hefði verið að farið. Svo var þó ekki gert.

Að mati Sigurðar stóð Kaupþing sterkast af við­skiptabönkunum þremur þegar fram á haustið 2008 var komið.

„Kaupþing var stærri en hinir bankarnir tveir til samans og var því leiðandi í allri þróun á íslenska fjármálamarkaðnum. Alveg sama hvað við gerðum gerðu hinir líka. Eftir á höfum við séð að Kaupþing var langsamlega best rekni bankinn og er himinn og haf þar á milli. Við höfðum þá stefnu að hafa laust fé til næstu 360 daga, en hinir bankarnir höfðu vart laust fé til morgundagsins.“

Kaupþing hefði ekki þurft að falla

Hann segir að Kaupþing hefði ekki þurft að falla, en margt hefði þurft að fara öðruvísi til að svo hefði orðið.

„Við höldum stjórnarfund í Kaupþingi dagana 24. og 25. september. Þar kemur fram að fjárhagsstaða bankans sé mjög góð. Mikið innstreymi af erlendum gjaldeyri sé inn á Edge reikningana, 40-60 milljónir evra á dag. Við vorum að fá miklu meira inn af gjaldeyri en sem nam gjalddögum á skuldabréfum og næsti gjalddagi var ekki fyrr en í júní 2009. Við litum því björtum augum á stöðuna og töldum víst að við stæðum þennan storm af okkur.

Síðan gerist það að Seðlabankinn og ríkissjóður segjast ætla að taka yfir Glitni með öllum þeim gríðarlegu gjalddögum á erlendum skuldum sem þar voru framundan. Ég held að Seðlabankinn hafi bara reiknað með því að viðbrögð markaðarins yrðu mjög jákvæð því verið væri að bjarga Glitni.“

Neyðarlögin innsigluðu fallið

Að mati Sigurðar voru það svo neyðarlögin sem ráku smiðshöggið á fall bankans. Hryðjuverkalögum Breta var ekki beitt á Kaupþing, en Sigurður segir öll erlend innlán bankans hafa verið í dótturfélögum á borð við Singer &Friedlander, sem var svo tekinn yfir af breskum stjórnvöldum.

„Viðbrögðin urðu hins vegar alfarið á hinn veginn og markaðurinn taldi að Glitnir myndi taka ríkissjóð með sér niður í fallinu. Í kjölfarið koma neyðarlögin, sem eru sett til að vernda ríkissjóð fyrir Landsbankanum og Icesave. Öll okkar erlendu innlán voru í dótturfélögum og lentu aldrei á ríkinu.

Þeir hefðu eins getað skotið okkur. Í kjölfarið beita Bretar svo hryðjuverkalögum á Seðlabankann og Landsbankann. Athugaðu að lögunum var ekki beitt gegn Kaupþingi. Á þessum tíma var mikið talað um fjármagnshreyfingar frá Kaupþingi í Bretlandi til Íslands, en þær fjármagnshreyfingar voru bara ekki til. Það er magnað hvað sú saga var lífseig. Eftir að hryðjuverkalögunum var beitt var Singer & Friedlander tekinn yfir af breskum yfirvöldum og þegar það gerist taka gildi gjaldfellingarákvæði á öllum okkar skuldabréfum. Þá er spilið búið.“

Sigurður Einarsson er í ítarlegu viðtali í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .