Allir starfsmenn leikjafyrirtækisins Plain Vanilla fá allar þær vörur frá Apple sem þeir þurfa, t.d. síma og tölvur, ókeypis líkamsræktarkort, vinnutíminn er sveigjanlegur og orlofið lika. Þessu til viðbótar eldar kokkur frá Argentínu steikhúsi hádegismat fyrir allt starfsfólkið en á föstudögum er farið í hádegismat á veitingastað í boði fyrirtækisins.

Þetta er á meðal þess sem talið er upp í tilkynningu frá Plain Vanilla í dag um fríðindi starfsfólk fyrirtækisins.

Þar segir að markmið fyrirtækisins sé að vera skemmtilegasti vinnustaður í heimi. Til að ná því markmiði fái starfsfólk ofan á allt annað eins mikla kókómjólk og ávexti og þeir geti í sig látið í vinnunni.

Þessu til viðbótar eru fjölmargir klúbbar starfræktir innan fyrirtækisins, t.a.m. Ray Ban klúbbur og brenniboltaklúbbur. Reglulega eru svo haldnir þemadagar, s.s. að allir klæðist hvítu eða eingöngu fötum úr gallaefni og nýverið klæddu allir sig í anda fjórða áratugar síðustu aldar.