Meirihluti tekjuhæstu Bandaríkjamannanna er fylgjandi skattahækkunum, þar á meðal hækkunum á skatta hinna tekjumestu. Í frétt CNBC er greint frá skoðanakönnun þar sem 67% þeirra sem eru með yfir 450.000 dali í árstekjur eru fylgjandi hærri tekjusköttum, en í sumar var þetta hlutfall 62%.

Þegar þeir eru spurðir sérstaklega um það hvort hækka eigi skatta á þeirra eigin tekjuflokk er rúmur helmingjur fylgjandi því.

Þetta þýðir þó ekki að tekjuhæstu Bandaríkjamennirnir séu alfarið sáttir við slíkar skattahækkanir því um 64% þeirra telja að skattaálagningin á þá sé ósanngjörn. Þá hafa nærri þrír fjórðu hlutar þeirra áhyggjur af skattahækkunum, en líklega meta þeir það svo að ef samkomulag næst ekki um að minnka fjárlagahalla Bandaríkjanna kunni það að hafa neikvæð áhrif á eignaverð. Sú lækkun gæti vegið þyngra en skattahækkanirnar.