*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 7. janúar 2017 15:09

Þeirra sjálfsagði réttur

Stjórnarformaður Arnarlax segir mál sem snúa að fyrirtækinu hafa verið kærð á öllum stigum - málsóknin nú komi ekki á óvart.

Trausti Hafliðason
Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, segist líta á málsókn, sem höfðuð hefur verið gegn fyrirtækinu, svolítið sem hluta af leyfisferlinu. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá verður mál gegn Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudaginn. Málið er höfðað af málsóknarfélaginu Náttúruvernd 1, sem krefst þess að rekstrar- og starfsleyfi Arnarlax verði ógilt.

„Við höfum verið í þessu ferli frá árinu 2009 þegar fyrirtækið var stofnað," segir Kjartan. „Mál sem að okkar snúa hafa verið kærð á öllum stigum í ferlinu og nú síðast til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í ágúst og þar var þessu vísað frá. Að mínu mati er það bara þeirra sjálfsagði réttur að fara með málið lengra.

Þessi málssókn kemur mér ekki óvart því þetta er sama þróun og hefur verið í löndunum alls staðar í kringum okkur. þetta eru viðkvæm mál. Við höfum þurft að þola mjög beinskeytta umræðu og við gerum það. Við þingfestingu málsins munum við fá fleiri gögn sem við munum skoða. Þar til við erum búnir að sjá þau vil ég helst ekki tjá mig mikið um þetta að öðru leyti en að það er okkar vilji að starfsemin sé í sátt við umhverfið og samfélagið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.