Seinni vélasamstæða Þeistareykjavirkjunar hefur verið tekin í notkun en hún mun skila 45 MW af uppsettu afli til viðbótar við þau 45 MW sem fyrri aflstöðin mun skila. „Framkvæmdir hófust árið 2015 en fyrri vélin var gangsett í lok síðasta árs og nú er önnur vélin komin í gang,“ segir Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, en á heimasíðu fyrirtækisins segir að orkuvinnsla virkjunarinnar muni verða 738 GWstundir á ári.

Hugmyndir um jarðvarmavirkjun við Þeistareyki má rekja áratugi aftur í tímann en undirbúningur og rannsóknir hófust með stofnun Þeistareykja ehf. árið 1999. Að sögn Rögnu mun orkan frá virkjuninni að miklu leyti verða afhent til kísilversins PCC á Bakka en afgangurinn sinna almennri eftirspurn.

Áhersla á varfærna nýtingu

Ragna segir að Landsvirkjun hafi lagt áherslu á varfærna nýtingu og uppbyggingu á Þeistareykjum. „Það er til umhverfismat fyrir 200 MW virkjun en nú erum við búin með 1. og 2. áfanga sem eru 90 MW. Við höfum sett okkur þá stefnu að vera með varfærna nýtingu þannig að við göngum ekki um of á auðlindina, að þetta sé sjálfbær nýting.

Það er bara mjög mikilvægt að þekkja auðlindina. Að vísu hafa verið þarna rannsóknir í fjölmörg ár en síðan þarf alltaf að sjá hvernig hún bregst við. Við stígum fyrst þessi skref með eina vél og síðan aðra en í kjölfarið munum við láta tímann leiða í ljós hvernig hún bregst við, allavega einhver ár,“ segir hún.

Þeistareykjavirkjun er fyrsta jarðvarmastöðin sem Landsvirkjun byggir frá grunni. „Þetta er auðvitað búið að vera lærdómsferli fyrir okkur en okkur finnst hafa tekist vel til. Við erum ánægð með þessa framkvæmd. Verkefnið var að frumkvæði heimamanna og við höfum átt mjög gott samtarf við þá, sem er algert lykilatriði. Það skiptir okkur máli að ákvarðanir sem eru teknar varðandi umhverfi og annað séu í fullri sátt við heimamenn og stuðningur þeirra mjög dýrmætur,“ segir Ragna.

Á henni er að skilja að Landsvirkjun sé stolt af því hversu vel var vandað til verka hvað varðar umhverfismál. „Við virkilega vönduð- um okkur við öll umhverfismál og í samskiptum. Markmiðið var að sem minnst rask yrði og við skuldbundum okkur til þess að sinna ákveðinni uppgræðslu í staðinn fyrir land sem við nýttum.  Við höfum alltaf haft í huga að þetta svæði er notað af bændum og heimamönnum. Þarna eru hestaferðir og útivist og allskonar starfsemi. Við höfum reynt að passa upp á það að þarna geti farið saman virkjun og önnur nýting,“ segir Ragna.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .