Áhugi Íslendinga á heilsufæði virðist alltaf vera að aukast en Solla í Gló segir ekki dag líða án þess að þau séu spurð hvenær þau ætli sér að opna fleiri staði og það séu skýr skilaboð.

„Fólk er að segja að við séum orðin of vinsæl og segist ekki nenna að bíða í biðröðum. Reykjavík er því að kalla á fjölgun staða sem er frábært. Eftir hrun gerðist eitthvað og fólk fór að líta sér nær. Það varð sprenging í heilsumeðvitundinni. Við leiðum þá breytingu og við sjáum að þegar hinir eru ekki að svara markaðnum þá verðum við að gera það. Það langar alla að borða hollt en ég finn að veitingamenn eru ragir við að fara í þessa átt. Námið hjá kokkum er allt of lítið grænmetismiðað og almenningur er kominn langt fram úr í fræðslumálunum. Veitingamenn treysta sér því ekki í þetta og hafa ekki þekkinguna og kunnáttuna.“