Ríkisstjórnin hefur mótað stefnu um nýfjárfestingar. Þingsályktunartillaga þess efnis liggur fyrir Alþingi. Flutningsmaður hennar er Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Tillagan er nú til umræðu í atvinnuveganefnd. Alls hefur verið óskað eftir 51 umsögn um málið og hafa sjö borist.

Tillagan sjálf er stutt. Í henni eru talin upp sex atriði, sem stjórnvöld hyggjast leggja áherslu til að auka nýfjárfestingar. Í athugasemdum við tillöguna er síðan farið nánar út í hvert þessara sex atriða.

„Auknar nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi eru ein af forsendum fyrir langtímahagvöxt," segir í athugasemdum við þingsályktunartillöguna.

Í athugasemdunum  er farið yfir styrkleika Íslands og sérstöðu. Þar segir að reynsla fjárfestingarsviðs Íslandsstofu bendi til að helstu styrkleikarnir felist meðal annars í endurnýjanlegri orku, miklu landrými, háu menntunarstigi, viðskiptasamningum við önnur lönd og legu landsins með tilliti til markaða í Evrópu og Bandaríkjunum og framtíðarmöguleikum á siglunum um Norður-Íshafið.
inn af þeim þáttum sem lögð er áhersla á í stefnu stjórnvalda er alþjóðageirinn en á meðal fyrirtækja sem í dag tilheyra honum eru Íslensk erfðagreining, Actavis, Nox Medical, Mentis Cura, Marel, 66°N og Plain Vanilla.

„Hagvöxtur mun að miklu leyti byggjast á vexti alþjóðageirans sem er þekkingariðnaður og keppir á alþjóðlegum samkeppnismarkaði," segir athugasemdum við tillöguna.  „Mikilvægt er því að beina athygli að sóknarfærum fyrirtækja í alþjóðageiranum í tengslum við nýfjárfestingar."

Samkvæmt greiningu McKinsey & Company, sem birt var í tillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, stóð alþjóðgeirinn undir 12% af vergri landsframleiðslu árið 2012, sem er tiltölulega lágt miðað við önnur Norðurlönd. Í tillögum samráðsvettvangsins kemur fram að framlegð alþjóðageirans þurfi að vaxa í 18% til að standa undir 3,5% hagvexti fram til ársins 2030. Þá fyrst væri framlegðin hér á pari við framlag alþjóðageirans árið 2009 í Danmörku.

„Til að ná þessum vexti þarf útflutningur alþjóðageirans að þrefaldast til 2030, en heildarútflutningur að aukast um 90%," segir í athugasemdum við þingsályktunartillöguna.

Stefna um nýfjárfestingar

Alþingi ályktar að efla skuli nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæfni Íslands á sviði nýfjárfestinga. Í því skyni verði lögð áhersla á nýfjárfestingarverkefni sem:

  1. byggjast á styrkleika Íslands og sérstöðu,
  2. stuðla að aukinni fjölbreytni og afleiddri innlendri starfsemi,
  3. ýta undir vöxt alþjóðlega samkeppnishæfs þekkingariðnaðar,
  4. styðjast við nýjustu og bestu fáanlegu tækni og um­hverfisviðmið,
  5. sem skapa innlendan virðisauka og hafa margföldunaráhrif, t.d. með samstarfi við starfandi íslensk fyrirtæki og með fjárfestingum í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum,
  6. skila sem mestum virðisauka og innleiða nýja þekkingu.

Tryggt verði að markaðs- og kynningarstarfsemi stjórnvalda, tengd nýfjárfestingum, sé í samræmi við þær áherslur sem fram koma í ályktun þessari.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .