Síðastliðið haust lagði knattspyrnumaðurinn Kári Árnason skóna á hilluna eftir að hafa orðið Íslands- og bikarmeistari með uppeldisfélaginu Víkingi Reykjavík. Þrátt fyrir að leikmannaferill Kára sé á enda yfirgaf hann ekki herbúðir uppeldisfélagsins að tímabili loknu, heldur tók hann við nýju starfi innan félagsins sem yfirmaður knattspyrnumála. „Þetta er mjög spennandi og skemmtilegt verkefni. Starf mitt tengist bæði barna- og unglingaráði, sem og meistaraflokki karla og kvenna."

Í barna- og unglingastarfinu sé það hans hlutverk að móta stefnu félagsins og útbúa handbók þar sem hún er aðgengileg. „Þessar handbækur eru svo afhendar yngri flokka þjálfurum Víkings sem vinna svo sitt starf í kringum stefnuna. Þannig næst samfella í barna og unglingastarf félagsins. Markmiðið er að þegar nýir þjálfarar koma inn í félagið þá gjörbreytist ekki allt. Við viljum vera á ákveðinni vegferð með okkar leikmenn og því mikilvægt að vera með heildstæða stefnu - ákveðinn ramma - sem þjálfarar vinna eftir. En svo er auðvitað hver og einn þjálfari með mismunandi áherslur í sinni þjálfun innan þessa ramma," segir Kári.

Meistaraflokksmegin standi til að hann komi m.a. að félagsskiptasamningum og samningum við núverandi leikmenn og þjálfara. Hann segir lykillinn í meistaraflokkastarfinu, rétt eins og í yngri flokka starfinu, snúast um að það sé samfella í starfi félagsins. „Þegar búið er að finna eitthvað sem virkar, sérstaklega eftir sigursælt tímabil eins og síðastliðið tímabil, þá er mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut. Við viljum t.d. forðast það að þegar nýr þjálfari komi til starfa að hann breyti öllu og fari í allt aðra uppskrift en þá sem hefur sýnt og sannað sig að virki í íslenskum fótbolta. Auðvitað verða alltaf einhverjar áherslubreytingar með komu nýs þjálfara en við viljum gæta þess að tapa ekki þeim gildum sem voru lykillinn á bakvið velgengnina. Við viljum halda í þessa umgjörð sem við vitum að virkar og að það sé til ákveðin „Víkingsleið" til að spila fótbolta."

Kári lítur svo á að það sé alls ekki veikleikamerki að lið sem mæti í Víkina, heimavöll Víkinga, að spila við Víking viti við hverju þau megi búast. „Það er svo undir aðalþjálfara liðsins komið að koma í veg fyrir að spilamennska liðsins sé fyrirsjáanleg og auðlesin. Árið 2020 var Víkingur alltof fyrirsjáanlegt lið og nánast öll lið deildarinnar búin að kortleggja okkar spilamennsku og setja upp ákveðnar leikaðferðir til þess að vinna okkur. Okkur tókst að snúa þessari þróun við á síðasta tímabili."

Hann bendir á að nútíma fótbolti snúist að miklu leyti um að lið séu með ákveðið yfirbragð (e. identity) og unnið sé eftir markvissri stefnu. „Þó að við lítum á okkur sem eitt stærsta lið landsins er Víkingur tíunda stærsta félag landsins hvað iðkendafjölda varðar. Við getum því tæplega búið til jafn marga meistaraflokksleikmenn og lið eins og Breiðablik, sem er með hafsjó iðkenda, en við viljum brúa bilið þannig að við framleiðum sjálf fleiri knattspyrnumenn."

KSÍ dró lappirnar

Áður en Kári tók að sér starf yfirmanns knattspyrnumála hjá Víkingi var hann orðaður við sama starf hjá Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ). Eins og þekkt er var Kári um langt skeið lykilmaður í miðri vörn íslenska landsliðsins, en alls á hann 90 landsleiki að baki og er sjötti leikjahæsti leikmaður í sögu liðsins. Kári segir ekkert leyndarmál að hann hafi sótt um starfið.

„Ég átti afar góðar samræður við Guðna Bergsson, sem þá var formaður KSÍ, og Arnar [Þór Viðarsson]. Mér fannst eðlilegt að nýr maður myndi stíga inn í starf yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ eftir að Arnar tók við sem aðalþjálfari, enda er það fullt starf og rúmlega það. Ástæðan fyrir því að ég sótti um starfið er sú að fyrir mér þá verður einhver sem hefur verið í kringum landsliðið, sem hefur náð frábærum árangri á undanförnum árum, að gegna þessari stöðu. Það þarf ekkert endilega að vera ég, það getur allt eins verið einhver annar af mínum fyrrverandi liðsfélögum."

Kári segir ástæðuna fyrir þessari skoðun sinni vera þá að þannig megi tryggja að það verði samfella, eins og hann lýsti í starfi Víkings fyrr í viðtalinu, í starfi KSÍ og hjá landsliðunum. „Auk þess verður að gæta þess að þessi vitneskja sem varð til í þessari sögulegu velgengni hverfi ekki út úr sambandinu. Annars er landsliðið alltaf í einhverjum uppbyggingarfasa. Sem dæmi hefur oft verið talað um að yngja þurfi upp landsliðshópinn, sem er skiljanleg umræða. Það má þó ekki gleyma því að í A-landsliðinu snúast hlutirnir fyrst og fremst um að ná árangri. Ef það er með reglubundnum hætti verið að fá inn nýja þjálfara sem ekki tengdust landsliðinu meðan vel gekk og því ekki öðlast þekkingu á hvað þurfi til að vinna landsleiki, er hætta á því að sú kunnátta hverfi út úr sambandinu. Það er þetta sem ég hef áhyggjur af og þess vegna sótti ég um starfið." Hann segir KSÍ hafa dregið lappirnar í viðræðunum og í millitíðinni hafi staðan hjá Víkingi boðist.

Nánar er rætt við Kára í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .