Að sögn Jóns Gunnarssonar, sérfræðings og samskiptafulltrúa hjá Einkaleyfastofu, er íslenskt hagkerfi að færa sig úr því að byggjast nær eingöngu á náttúrulegum auðlindum yfir í að samanstanda meir og meir af hugviti og hugverkum. Vegna þessa er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að fyrirtæki séu á varðbergi og verndi þau verðmæti sem skapast í gegnum hugvit.

Hann segist hafa orðið var við skort á þekkingu á hugverkaréttindum meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi og segir stjórnendur ekki alltaf gera sér grein fyrir þeim verðmætum sem felist innanveggja fyrirtækja þeirra.

Ekki bara vernd heldur einnig tól til að auka verðmæti

Jóni þykir þó leiðinlegt að einblína aðeins á hugverkaréttindi sem leið til að vernda enda séu þau einnig mikilvæg tæki til að auka verðmæti hugverka og fyrirtækja. „Ef þú ert t.d. að reyna að selja fyrirtækið þitt eða leita þér að fjárfestum er mikilvægt að geta svarað því hver verðmæt fyrirtækisins eru og til hvaða aðgerða þú hefur gripið til að tryggja þau verðmæti og auka verðmæti þeirra til framtíðar.

Ástæðan fyrir því að þetta er alltaf að verða mikilvægara er að við erum bara að færa okkur úr því að vera land sem treystir að mestu leyti á náttúruauðlindir yfir í að verða upplýsingasamfélag þar sem verðmætin koma meira og meira úr hugviti og þekkingu. Og þetta mun bara verða mikilvægara þegar fram líða stundir. Skýrslur sem Evrópusambandið hefur gefið út sýna það svart á hvítu að hlutur hugverka í hagkerfum er alltaf að stækka en auk þess eru störfin sem skapast í þessum iðnaði gjarnan betur launuð en hefðbundin störf og þola betur sveiflur í hagkerfum,“segir Jón enn fremur.

Nánar er fjallað um málið í VIðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.