*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 9. október 2020 18:41

Þekkti milliliðurinn svarar fyrir sig

Kaupendur skipa Eimskipa sem kom þeim í niðurrif, segir umfjöllun Kveiks nota neikvæðar staðalímyndir til að sverta Indland.

Ritstjórn
Hér má sjá yfirlitsmynd frá skipakirkjugarðinum í Alang á Indlandi þar sem skip sem fara í niðurrif er einfaldlega siglt upp í ströndina.
Aðsend mynd

Enginn afsökunartónn er í yfirlýsingu alþjóðlega skipamiðlarafyrirtækisins Global Marketing System (GMS) vegna ásakana í sjónvarpsþættinum Kveik sem beindi kastljósi sínu á Eimskipafélagið á dögunum vegna endurvinnslu tveggja skipa félagsins á Indlandi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá um hefur Eimskipafélagið hins vegar beðist afsökunar á því að hafa ekki gert ríkari kröfur til kaupandans um endurvinnslu samkvæmt evrópskum stöðlum. Eimskip hefur jafnframt upplýst um að það sæti ákæru Umhverfisstofnunar vegna málsins í krafti brota á lögum um meðferð spilliefna um borð í skipunum.

Sams konar umfjöllun BBC sögð hafa verið hrakin

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um ekki ólíka umfjöllun BBC rúmri viku fyrir birtingu Kveiks þáttarins en GMS segir nú í fréttatilkynningu vegna þáttar RÚV að þegar hafi ásakanirnar hjá breska ríkissjónvarpinu verið hraktar.

Þvert á móti sakar skipamiðlarinn RÚV um lélega fréttamennsku, og þjónkun við hagsmunaaðila sem sé vísvitandi að reyna að sverta starfsemi endurvinnslufyrirtækja í skipakirkjugarðinum í Alang á Indlandi til stuðnings óhagkvæmum skipaendurvinnsluiðnaði í Evrópu sem fylgi ESB reglum

Segir GMS rangt hjá Ríkisútvarpinu að Hong Kong sáttmálinn, sem sagt er frá í umfjöllun Viðskiptablaðsins, um meðferð spilliefna í endurvinnslu skipa sé ekki alþjóðlega viðurkenndur og enginn fylgi reglum hans.

Það sé bæði rangt og eitt skýrra dæma um að hinn svokallaði heimildaþáttur Kveiks eins og þeir kalla hann, sé hlutdrægur og þjóni markmiðum því hann nefni ekki að alþjóðleg hafmálastofnun Sameinuðu ÞJóðanna hafi staðið a samkomulaginu, og hann sé þegar viðurkenndur af 15 ríkjum, þar á meðal nokkrum Evrópuríkjum, og framfylgdur af faggiltum eftirlitsaðilum.

Jafnframt segir í svari GMS að til sáttmálans hafi verið stofnað til að hægt væri að tryggja aðkomu skipakirkjugarðanna í suðvestur asíu í sáttmálann því sérhver velheppnaður sáttmáli um þessi efni þurfi að tryggja aðkomu þeirra.

Evrópusáttmálinn sem Eimskip er legið á hálsi að hafa ekki fylgt með sölu skipanna tveggja til GMS sem síðan seldu þau áfram til niðurrifs, hafi í raun verið settur upp til að koma Hong Kong sáttmálanum á fót hraðar.

Noti neikvæðar staðalímyndir til að sverta indverskan iðnað

Slíkar staðreyndir eru sagðar virtar að vettugi af þeim sjálfseignarstofnunum og blaðamönnum sem séu að reyna að láta skipaendurvinnsluiðnaðinn í suðvestur asíu líta illa út með því að nýta neikvæðar staðalímyndir um svæðið.

Til að mynda sé aðferðin við niðurrifið, þar sem þyngdaraflið er nýtt, sem talað er um sem sértæk fyrir það svæði, algild og víðast hvar notuð, og jafnað á við það þegar hús á vesturlöndum eru látin hrynja á stýrðan hátt.

Umfjöllunin um aðferðina er sögð þjóna evrópskum skipaendurvinnslum sem þurfi á niðurgreiðslum stjórnvalda að halda og það sé rangt að aðferðirnar sem notaðar séu í Alang séu í sjálfu sér slæmar fyrir umhverfið.

Fjölmargra annarra grasa kennir í harðorðari gagnrýni GMS, meðal annars að skipaendurvinnsla í Ghent í Belgíu sé loksins að nálgast endurvinnsluhlutfallið í Alang með því að einungis 2% skipanna fari nú í landfyllingar.

Einnig er Eimskipafélagið sagt heppið að hafa náð að selja skipin á góðu verði byggðu á því að það yrði nýtt áfram en ekki endurunnið og ætti frekar að hrósa stjórnendum félagsins fyrir að hafa þannig náð að þjóna hagsmunum fyrirtækisins og hluthafa vel.

Jafnframt eru ásakanir um að öryggi starfsmanna við niðurrifið sé ekki nægt sagðar rangar, og byggðar á frásögn eins manns, meðan fjöldi fólks komi um langan veg til Alang til að sækja hærri laun við endurvinnsluiðnaðinn. Meðal rangfærslna eru sagðar að engin sjúkrahús séu á svæðinu sem einföld leit í Google sýni fljótt að sé alrangt því þar séu þrjár í Alang.

Lesa má yfirlýsingu GMS í heild sinni hér.

Hér má lesa eldri fréttir um Eimskipafélag Íslands: