Að DataMarket kemur þekkt teymi fjárfesta úr upplýsingatækni- geiranum, Skúli Mogensen, Hilmar Gunnarsson og Haraldur Þorkelsson, sem allir störfuðu að uppbyggingu Oz í Kanada. Aðrir í hluthafahópnum eru Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður Verne Holding og CCP, Ragnar Þórisson í Boreas Capital og Örn Karlsson. Hjálmar Gíslason, stofnandi DataMarket segir í viðtali við Viðskiptablaðið að þetta sé frábær hluthafahópur sem hafi reynslu af því að byggja upp sprotafyrirtæki, koma þeim í góðan rekstur og finna þeim loks farveg sem skili fjárfestum arði.

Fjárfrekt verkefni

DataMarket er enn frekar smátt í sniðum. Veltan á þessu ári stefnir í 60-70 milljónir. Miðað við það sem er í pípunum segir Hjálmar að vöxturinn ætti að geta verið hraður. Áætlanir gera ráð fyrir að fyrirtækið þrefaldi veltuna á næsta ári og síðan tvö- til þreföldun á ári eftir það. Um 80 milljónir hafa farið í þróunarvinnu hjá DataMarket sem fjármagnaðar hafa verið af stofnendum og hluthöfum. Hjálmar segir þróun DataMarket tækniþungt verkefni þar sem ekki hafi verið ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. „Við erum með tiltölulega einstaka hugmynd og aðrir verða lengi að ná okkur.“ Um tvö til þrjú ár til viðbótar þarf að fjármagna með frekari fjárfestingu til að standa undir þeim vexti sem ráðgerður er í dag. Hingað til hefur fjármunum aðallega verið varið í tæknileg atriði og starfsemina hér á landi.

Viðtalið í heild má lesa í Viðskiptablaðinu 7. júlí 2011.